Innlent

Torfærumót blásið af eftir slys: „Þakka fyrir að allur þessi búnaður var í notkun“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá mótinu við Stapafell í gær. Myndin tengist efni fréttarinnar óbeint.
Frá mótinu við Stapafell í gær. Myndin tengist efni fréttarinnar óbeint. Gunnlaugur Einar Briem
Önnur umferð Íslandsmótsins í torfæru var blásin af í gær eftir að ökumaður slasaðist í fjórðu braut keppninnar. Klippa þurfti ökumanninn, sem hlaut höfuðáverka, í stól sínum úr bílnum og var hann fluttur á slysadeild. Hann hefur nú lokið öllum rannsóknum og heilsast vel, að sögn mótsstjórans Ragnars Bjarna Gröndal.

„Dagurinn fór rosalega vel af stað með smá rigningardembu annað slagið sem virðist fylgja íslenskri torfæru. Við vorum búin að keyra fjórar brautir í götubílum og vorum að keyra fjórðu brautina fyrir sérútbúna þegar einn ökumaðurinn fær mikið högg á sig við lendingu í hliðarhalla. Það verður til þess að það kemur mikill slinkur á bílinn hjá honum,“ segir Ragnar.

Allur öryggisbúnaður bílsins virkaði „hárrétt“ að sögn Ragnars; stóll, hjálmur og veltigrind skiluðu sínu og vörnuðu því að ekki fór verr. „Ég held að hann megi þakka fyrir að allur þessi búnaður var í notkun, annars hefði þetta farið mun verr.“

Mótið, sem fram fór í námunum sem liggja við Stapafell á Suðurnesjum, var blásið af eftir slysið – „við vissum ekkert um ástandið á keppandanum,“ segir Ragnar. „Allt starfsfólkið var í uppnámi eftir svona atvik. Maður veit ekki hvað er og allir reyna því að hjálpast að.“

Hvað framhald Íslandsmótinu varðar segir Ragnar að verðlaun verði veitt í næstu viku fyrir það sem búið var af mótinu áður en slysið varð. Ekki hefur þó enn verið tekin ákvörðun um hvort Íslandsmeistarastig verði veitt fyrir mótið – þar sem það var ekki „keyrt sem löglegt mót eftir svona uppákomu.“ Fundað verður um framhaldið hjá Akstursíþróttasambandi Íslands á næstunni.

Myndband frá mótinu í gær má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×