Enski boltinn

Fabregas: Algjör synd að ég fékk ekki að byrja bikarúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas horfir á leikmenn Arsenal fagna sigri í bikaúrslitaleiknum.
Cesc Fabregas horfir á leikmenn Arsenal fagna sigri í bikaúrslitaleiknum. Vísir/Getty
Cesc Fabregas var ekki í byrjunarliði Chelsea á Wembley í gær þegar liðið tapaði 2-1 í bikarúrslitaleiknum á móti hans gömlu félögum í Arsenal.

Fabregas hefur aðeins fimmtán sinnum verið í byrjunarliði Chelsea á leiktíðinni en hafði byrjað fjóra af síðustu sex leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni þar sem liðið tryggði sér endanlega enska meistaratitilinn.

„Ég var í mjög góðu formi og það er algjör synd að ég fékk ekki að byrja leikinn,“ sagði Cesc Fabregas við BBC eftir leikinn.

„Mér fannst ég vera að spila vel , meira að segja mjög vel síðustu mánuði,“ sagði Fabregas.

„Auðvitað vilja allir leikmenn fá að spila meira. Það er í genum sigurvegarans og ég er einn af þeim. Ég er samt hér til að gera það sem liðinu vantar,“ sagði Fabregas.

„Stundum snýst þetta bara um ákvörðun þjálfarans. Ég tel að ég hafi ekki geta gert mikið meira á þessu tímabili. Þjálfarinn ræður þessu og maður verður að virða það,“ sagði Cesc Fabregas sem hefur spilað með Chelsea frá því að hann kom þangað frá Barcelona 2014.

Það eru einhverjar vangaveltur um að Fabregas gæti verið á förum frá Chelsea og hann sjálfar útilokar ekki neitt. „Það getur allt gerst en ég hef alltaf fundið fyrir ást frá stuðningsmönnum Chelsea. Þetta snýst bara um að breyta skoðun stjórans,“ sagði Fabregas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×