Fótbolti

Kjartan Henry bjargvættur Horsens

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason. Vísir/Getty
Kjartan Henry Finnbogason skoraði tvívegis fyrir Horsens þegar liðið vann 3-2 sigur á Esbjerg í dag í seinni leik liðanna í umspili um sæti í dönsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Horsens vann þar með 4-3 samanlagt og sendi Esbjerg niður um deild. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli á heimavelli Esbjerg-liðsins.

Horsens fær nú tvo leiki við Vendsyssel þar sem sigurvegarinn tryggir sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni 2017-18.

Horsens komst í 1-0 með marki Lasse Kryger á 36. mínútu en Jacob Lungi Sørensen jafnaði fyrir Esbjerg fjórum mínútum fyrir hálfleik.  Það var því allt jafnt í hálfleik, bæði í þessum leik og samanlagt.

Þá var komið að gamla KR-ingnum en íslenski landsliðsframherjinn Kjartan Henry Finnbogason tryggði Horsens sigurinn með tveimur mörkum í seinni hálfleik.

Kjartan Henry kom Horsens í 2-1 strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiksins og skoraði síðan þriðja markið á 73. mínútu.

Þannig var staðan þar til að Konstantinos Tsimikas hjá Esbjerg var rekinn í sturtu.

Tíu liðsmenn Esbjerg settu spennu í leikinn þegar Budu Zivzivadze minnkaði muninn í 3-2 á 90. mínútu. Það mark kom hinsvegar of seint og Horsens-menn fögnuðu sigri.






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×