Erlent

Harry Bretaprins bauð Obama í heimsókn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Harry Bretaprins og Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, við Kensingtonhöll í gær.
Harry Bretaprins og Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, við Kensingtonhöll í gær. Vísir/AFP
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, heimsótti Harry Bretaprins í Kensingtonhöll í London í gær. Höllin er nýjasti viðkomustaður Obama, sem er nú á ferðalagi um Evrópu.

Í tilkynningu frá Kensingtonhöll sagði að þeir félagar hefðu rætt sameiginleg áhugamál sín, þar á meðal stuðning við uppgjafahermenn, geðheilbrigðismál, málefni ungs fólks og starf sitt innan góðgerðarmála.

Þá ræddu þeir hryðjuverkaárásina í Manchester, þar sem 22 létu lífið er árásarmaður sprengdi sig í loft upp fyrir utan Manchester Arena fyrr í vikunni, en Obama bar fórnarlömbum árásarinnar og aðstandendum þeirra samúðarkveðjur.

Barack Obama hefur komið víða við á ferðalagi sínu í Evrópu, en hann ræddi við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á opnum fundi í Berlín fyrr í vikunni. Þar vottaði hann fórnarlömbum Manchester-árásinnar einnig samúð sína.

„Til allra þeirra er hafa orðið fyrir áhrifum af árásinni, til allra sem eru enn að ná sér aftur á strik, til þeirra sem hafa misst ástvini, það er ekki hægt að ímynda sér grimmdina og ofbeldið sem Manchester-borg hefur þurft að þola,“ sagði Obama í myndbandi sem skrifstofa kanslarans birti.


Tengdar fréttir

Obama ræddi við Merkel á opnum fundi í Berlín

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er nú staddur í Berlín, höfuðborg Þýskalands, þar sem hann hitti fyrir kanslarann, Angelu Merkel, við Brandenborgarhliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×