Handbolti

Aron danskur meistari í þriðja sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron hefur sex sinnum gert lið að landsmeisturum á þjálfaraferlinum.
Aron hefur sex sinnum gert lið að landsmeisturum á þjálfaraferlinum. vísir/getty
Aalborg varð í dag danskur meistari í handbolta karla eftir 25-32 sigur á Skjern í seinni úrslitaleik liðanna. Fyrri leiknum lyktaði með jafntefli, 26-26.

Aron Kristjánsson gerði því Aalborg að meisturum á sínu fyrsta tímabili við stjórnvölinn hjá liðinu. Þetta er í þriðja sinn sem Aron verður danskur meistari sem þjálfari en hann gerði Kolding að meisturum 2014 og 2015.

Þetta er jafnframt í sjötta sinn sem Aron gerir lið að landsmeisturum. Undir hans stjórn urðu Haukar Íslandsmeistarar þrjú ár í röð (2008-10).

Aalborg var mun sterkari aðilinn í leiknum í dag og leiddi allan tímann. Eftir rúmar níu mínútur var staðan 2-6 og í hálfleik munaði fjórum mörkum á liðunum, 10-14.

Skjern minnkaði muninn í eitt mark, 16-17, þegar 21 mínúta var eftir en þá gaf Aalborg aftur í, skoraði fjögur mörk gegn einu og náði aftur góðu forskoti. Aalborg kláraði leikinn með stæl og vann á endanum sjö marka sigur, 25-32.

Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk fyrir Aalborg og var eini Íslendingurinn sem komst á blað í leiknum. Hann gaf einnig þrjár stoðsendingar. Janus skoraði alls sjö mörk og gaf sjö stoðsendingar í úrslitaeinvíginu.

Stefán Rafn Sigurmannsson var ekki á meðal markaskorara í sínum síðasta leik fyrir Aalborg en hann er á leið til ungverska liðsins Pick Szeged. Arnór Atlason skoraði ekki heldur fyrir Aalborg.

Tandri Már Konráðsson var ekki á meðal markaskorara hjá Skjern.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×