Fastir pennar

Dýrasta djásn

Magnús Guðmundsson skrifar
Þetta land er og þessi þjóð er auðvitað engu lík. Þannig eru reyndar flestar þjóðir, hafa sín sérkenni, sína sérvisku og eigin þjóðarvitund. Allt þetta sem gerir þær að þjóðum meðal þjóða og þar er líkast til ekkert jafn mikilvægt og tungumálið.

Sérstaklega fyrir fámenna þjóð eins og okkur Íslendinga sem situr ein að sínu gamla og sérstaka tungumáli sem hefur lifað af yfirráð herraþjóða, hernám, tæknibyltingu og jafnvel heimsvæðingu síðustu áratuga. Það má jafnvel ganga svo langt að velta því fyrir sér hvort við hefðum einhvern tíma orðið frjáls og fullvalda þjóð ef ekki hefði verið fyrir íslenskuna. Baráttan fyrir íslenskunni hefur svo sannarlega oft verið hörð en hún hefur alltaf og mun alltaf verða þess virði fyrir þjóð sem vill vera sinn eigin herra.

Það er oft talað um þá miklu hættu sem íslenskunni stafar af ört vaxandi tækniþróun og það er svo sannarlega ekki ástæða til þess að gera lítið úr því. Við vitum þó við hvað er etja, hvað þarf að gera og hvað það kostar ef við viljum að íslenskan haldi velli. En það er ekki tilfellið þegar kemur að fólkinu sem er treyst fyrir þessu verðmæta og einstaka tungumáli. Þjóðin sem fékk íslenskuna í vöggugjöf virðist nefnilega á stundum vera alveg meira en til í að láta hana flakka ef það gefur nægilega mikið í aðra hönd. Gróði er guð samtímans.

Við þurfum ekki að líta lengi í kringum okkur til þess að sjá þennan veruleika. Nú er ekki lengur í boði að fljúga innanlands með Flugfélagi Íslands heldur þurfum við að fljúga með Air Iceland Connect. Það ætti kannski ekki að koma okkur á óvart enda erum við með eitthvað fresh í nesti, ætlum að skreppa á Tax Free daga í bænum og skella okkur svo kannski gourmet út að borða eða á eitthvað annað viðlíka adventure. Af nógu er að taka á Íslandi í dag og þeir fáu Íslendingar sem eru ekki enskumælandi þurfa kannski bráðum að taka með sér túlk ef þeir ætla að bregða sér í verslunarleiðangur. Það sem meira er, þá einskorðast enskuvæðingin ekki við almenn fyrirtæki heldur má einnig sjá slíku bregða fyrir í listum og menningarstarfsemi þar sem markmiðið er að meikaða, fremur en að skapa list á íslenskum forsendum fyrir Íslendinga. Hið síðarnefnda er reyndar eitthvað sem útlendingum finnst oft forvitnilegra en hitt sem er alveg eins og það sem þeir sjá og heyra á heimaslóð.

Auðvitað er ekkert að því að fyrirtæki hafi það einfalda og skýra markmið að skila hagnaði. Í dag stendur fjöldi fyrirtækja á Íslandi frammi fyrir því að stór hluti viðskiptavinanna eru ferðamenn og til þeirra vilja þau ná með ráðum og dáð. Þau vilja njóta á meðan á nefinu stendur eins og kerlingin sagði en við þurfum að staldra við ef það á vera á kostnað tungumálsins. Það gerist ekki með því að eitthvert eitt fyrirtæki skipti um nafn eða að enskan taki yfir á merkingum á einni verslun, heldur með því að einn eltir annan í gróðavoninni, því dropinn holar steininn. En ef við fórnum sjálfri íslenskunni verður það ekki aftur tekið og þess vegna þurfum við öll að hlúa að henni, rækta hana og næra því hún er okkar dýrasta djásn.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. maí.






×