Fótbolti

Kóngurinn í Róm kvaddi með sigri | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Totti var tolleraður af samherjum sínum í leikslok.
Totti var tolleraður af samherjum sínum í leikslok. vísir/getty
Francesco Totti lék sinn síðasta leik fyrir Roma og síðasta leikinn á ferlinum þegar Rómverjar unnu 3-2 sigur á Genoa í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Totti kom inn á sem varamaður á 54. mínútu, í stöðunni 1-1. Daniele De Rossi kom Roma í 2-1 á 74. mínútu en fimm mínútum síðar jafnaði Darko Lazovic metin fyrir Genoa.

Það var svo varamaðurinn Diego Perotti sem skoraði sigurmark Rómverja á lokamínútunni. Með sigrinum hélt Roma 2. sætinu og liðið fer því beint í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta tímabili.

Totti var vel fagnað á Ólympíuleikvanginum í Róm í dag enda dáðasti sonur félagsins.

Totti lék sinn fyrsta leik fyrir Roma í mars árið 1993, aðeins 16 ára gamall. Það liðu því rúm 24 ár á milli fyrsta og síðasta leiks Totti fyrir Roma.

Totti lék með Roma allan sinn feril, alls 786 leiki og skoraði 307 mörk. Hann er bæði leikja- og markahæstur í sögu Roma.

Totti varð einu sinni ítalskur meistari með Roma. Það var árið 2001, sama ár og Pietro Pellegri, sem skoraði fyrra mark Genoa, fæddist. Pellegri er yngsti markaskorari í sögu ítölsku úrvalsdeildarinar.

vísir/getty
vísir/getty
vísir/getty
vísir/getty
vísir/getty
vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×