Enski boltinn

Terry enn óákveðinn um framtíðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry hættir hjá Chelsea sem Englandsmeistari.
John Terry hættir hjá Chelsea sem Englandsmeistari. Vísir/Getty
Rúmlega tveggja áratuga dvöl hjá Chelsea sem leikmaður er nú lokið hjá varnarmanninum John Terry eftir að hans menn töpuðu fyrir Arsenal í úrslitaleik bikarsins um helgina.

Ljóst er að Terry stefnir á að gerast þjálfari en hann útilokar ekki að spila áfram á næsta tímabili. Hefur hann verið orðaður við Swansea, West Brom og Bournemouth sem og við félög í Bandaríkjunum og Kína.

„Mér standa ýmsir kostir til boða en það er ekkert ákveðið,“ sagði Terry við enska fjölmiðla um helgina. „Það eru margir sem spyrja mig út í þetta en það trúir mér enginn þegar ég segi þetta.“

Terry kom við sögu í alls 717 leikjum með Chelsea á ferlinum og hefur fimm sinnum orðið Englandsmeistari með félaginu, nú síðast í vor. Hann hefur líka unnið Meistaradeild Evrópu, ensku bikarkeppnina og deildabikarinn.

Það virðist þó lítil hætta á því að hann verði ekki viðriðinn knattspyrnu í framtíðinni, þá sem þjálfari.

„Ég tel að ég hafi lært of mikið og hafi of mikið að gefa til að hætta. Ég vil verða knattspyrnustjóri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×