Erlent

200 kílóa hákarl stökk upp í bát ástralsks sjómanns

Atli Ísleifsson skrifar
Hákarlinn var 2,7 metrar að lengd og um 200 kíló.
Hákarlinn var 2,7 metrar að lengd og um 200 kíló. Vísir/AFP
Um 200 kílóa hvítur hákarl stökk um helgina upp í bát hins 73 ára sjómanns, Terry Selwood, þegar hann var á veiðum við Evans Head á austurströnd Ástralíu.

Selwood útskýrir fyrir ABC News hvernig hákarlinn hafi komið svífandi og hvernig einn ugginn fór utan í sig með þeim afleiðingum að hann fór í gólfið.

Hákarlinn var 2,7 metrar að lengd og um 200 kíló, og þar sem báturinn var einungis 4,5 metra langur var lítið pláss fyrir Selwood að athafna sig.

„Ég var þarna á fjórum, hann leit á mig og ég á hann. Síðan byrjaði hann að „dansa“ og hristast til,“ segir Selwood sem dreif sig upp á borðstokkinn og tilkynnti um atvikið.

Björgunarbátur mætti svo á svæðið og dró svo bátinn að landi með hákarlinn um borð. Selwood hyggst láta gera við bátinn við fyrsta tækifæri þannig að hann geti haldið aftur út á veiðar sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×