Erlent

Breskur dýragarður rýmdur eftir „alvarlegt atvik“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hamerton dýragarðurinn.
Hamerton dýragarðurinn.
Dýragarður í Cambridgeskíri á Englandi hefur verið rýmdur eftir „alvarlegt atvik,“ eins og lögreglan orðar það í samtali við breska fjölmiðla. Sjúkraflutningamenn bæta um betur  í frétt BBC og segja það „mjög alvarlegt.“

Viðbragðsaðilar voru sendir að Hamerton-dýragarðinum í Steeple Gidding um klukkan 11:15 að staðartíma. Talsmaður dýragarðsins gat lítið gefið upp í samtali við Guardian að öðru leyti en að atvikið tengist ekki strokudýri. 

Garðinum hefur verið lokað og verður ekki opnaður aftur í dag en um 500 dýr eru til sýnis í Hamerton.

Hávær orðrómur fór á flug á samfélagsmiðlum um að dýragarðinum hafi verið lokað eftir að tígrísdýr slapp úr gryfju sinni. „Við getum ekki gefið neinar nánari upplýsingar sem stendur. Við getum þó staðfest að lokunin tengist ekki lausu dýri og að almenningur er ekki í hættu,“ sagði lögreglan í Cambridge í samtali við fjölmiðla.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hamerton-dýragarðurinn ratar í fjölmiðla. Blettatígur slapp úr garðinum árið 2008 og fannst í íbúðahverfi skammt frá. Níu ára drengur gerði lögreglunni viðvart þegar hann sá til blettatígursins í bakgarði fjölskyldunnar.

Fréttin verður uppfærð þegar málið skýrist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×