Erlent

Ferðir árásarmannsins í Manchester kortlagðar frekar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregluþjónar við störf í Manchester í dag í tengslum við árásina þar í borg á mánudag.
Lögregluþjónar við störf í Manchester í dag í tengslum við árásina þar í borg á mánudag. Vísir/AFP
Salman Abedi er talinn hafa verið á ferðinni með þessa tösku nálægt miðborg Manchester fáeinum dögum fyrir árásina.Vísir/AFP
Lögregla í Manchester handtók í dag 23 ára gamlan mann í Sussex í Englandi í tengslum við hryðjuverkin í Manchester. Þá sendu lögregluyfirvöld frá sér nýja mynd af árásarmanninum sem sýnir hann draga á eftir sér bláa ferðatösku fáeinum dögum fyrir árásina.

Í frétt breska daglaðsins The Guardian kemur fram að maður hafi verið handtekinn í bænum Shoreham-by-Sea í Sussex í suðurhluta Englands í dag í tengslum við árásina. Maðurinn, sem talinn  er vera hinn 23 ára gamli Ala Zakry, rekur Hasoub Alafak, svokallað sölutorg á internetinu sem hefur bækistöðvar í Trípólí, höfuðborg Líbýu. 

Í dag sendi lögregla einnig frá sér nýja mynd úr öryggismyndavél sem sýnir árásarmanninn, Salman Abedi, draga á eftir sér bláa ferðatösku. Talið er að myndin hafi verið tekin einhvern tímann á tímabilinu 18.-22. maí. Þá hefur lögregla einnig sent frá sér myndband úr öryggismyndavél búðar í grennd við íbúðina sem Abedi hafðist við í örfáum klukkutímum fyrir árásina. Í myndbandinu sést maður, sem talinn er vera Abedi, versla í búðinni. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær myndbandið er tekið upp.

Leit stendur yfir í ruslahaug í nágrenni Manchester-borgar.Vísir/AFP
Lögregla hefur einnig athafnað sig á Rusholme-svæðinu í Manchester, þar sem árásarmaðurinn er talinn hafa haldið til í aðdraganda árásarinnar. 14 eru nú í haldi lögreglu vegna hryðjuverkanna á mánudag.

Leit stendur einnig yfir í ruslahaug í Pilsworth í Bury í grennd við Manchester í tengslum við árásina.

Vika er nú síðan hinn 22 ára Salman Abedi sprengdi sig í loft upp við inngang Manchester Arena. Mikill mannfjöldi kom saman á bænavöku í Manchester í dag til að minnast þeirra sem létust í árásinni.

Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í Bretlandi eru 52 enn þá á sjúkrahúsi vegna árásarinnar og þar af 19 í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×