Skoðun

Landlækni mótmælt

Reynir Arngrímsson skrifar
Haft er eftir landlækni í Fréttablaðinu þann 9. maí sl. að sérfræðingar verji of litlum tíma á Landspítala og þeir stofni öryggi sjúklinga í hættu með því að vinna líka sumir á læknastofum. Þetta er harður dómur um starfsemi Landspítalans, ekki síður en ásakanir um að læknar sjúkrahússins svíkist um í starfi og beri ábyrgð á hvernig farið hefur fyrir fjárlögum Alþingis til heilbrigðismála á liðnum árum.

Þeir sem þekkja til starfa sérfræðilækna Landspítalans vita að þetta er ekki rétt. Læknar spítalans hvort sem þeir eru í hluta- eða fullu starfi sinna því af fagmennsku, samviskusemi og oft umfram starfsskyldur.

Vandamál heilbrigðiskerfisins er ekki að framlög til sérfræðiþjónustu hafi haldið í við verðlags- og vísitöluþróun á meðan fjárlög til annarra hluta hafi verið skert óhóflega. Það gefur hins vegar mynd af því hver fjárframlög til sjúkrahúsa og heilsugæslunnar hefðu þurft að vera og hvað hún þarf að aukast um á næstu árum til að hún verði samkeppnishæf í þjónustu við nágrannalöndin og starfsfólk í heilbrigðisstéttum.

Landspítali hefur í langflestum tilvikum haft hag af því að hluti læknahópsins sé í hlutastarfi. Þjóðfélagið líka að í landinu sé nægjanlega margir læknar sem spanni breiða faglega þekkingu læknisfræðinnar og deili álagi af vaktabyrði á fleiri herðar en færri.

Þetta fyrirkomulag hefur skapað sveigjanleika og samfélagslegt öryggi þannig að krítískur massi þekkingar og þjálfaðra lækna ætti ætíð að vera til staðar á hverjum tíma, án þess að þeir þurfi að leggja fjölskyldulíf og heilsu að veði með óhóflegri vaktabyrði og álagi í starfi.

Störf sérfræðilækna part úr degi að loknum starfsskyldum á Landspítala eða annarra lækna á læknastofum eru ekki ógn við sjúklinga. Þvert á móti má færa rök fyrir því að þannig hafi læknar haldið uppi gæðum og öryggi í vanræktu heilbrigðiskerfi.




Skoðun

Sjá meira


×