Skoðun

Á meðan þú sefur

Guðríður Kristín Þórðardóttir skrifar
Í tilefni af alþjóðadegi hjúkrunar þann 12. maí langar mig að veita lesendum örlitla innsýn í hlutverk, ábyrgð og störf hjúkrunarfræðinga á vinnustaðnum mínum, Landspítalanum.

Hjúkrunarfræðingar eiga oft erfitt með að koma því í orð hvað felst í daglegum störfum þeirra. Það stafar af því að hjúkrun er með eindæmum fjölbreytt og margslungið starf og oft er erfitt að skilgreina það eða mæla árangur þess.

Einn vinkill hjúkrunar og kannski sá sem er mest áberandi út á við er „hjúkrun við rúm sjúklingsins“. Hlutverk hjúkrunarfræðinga er í einfölduðu máli: eftirlit og meðferð. Þeir hafa, ásamt sjúkraliðum, viðveru á deildum allan sólarhringinn. Ég veit ekki hvort „leikmenn“ geri sér grein fyrir því - en læknar koma að öllu jafna ekki að rúmi sjúklingsins utan stofugangs nema hjúkrunarfræðingur óski eftir því. Eftirlit og mat á öryggi og heilsufari sjúklingsins er því nær alfarið á ábyrgð hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar veita sjúklingum meðferðir eins og lyfjagjöf, sárameðferð, fræðslu, hreyfingu, næringu, munnhirðu, svefn, meðferð einkenna, sálgæslu, áfallahjálp og svo mætti lengi telja. Fyrirbyggjandi meðferðir eru einnig að mestum hluta á ábyrgð hjúkrunarfræðinga og þeir hafa það hlutverk að samhæfa hina ýmsu þjónustu sem sjúklingar fá, innan sem utan spítalans - og eru í miklum samskiptum við sjúklinga, fjölskyldur og þjónustuaðila þeirra.

Þar fyrir utan er hjúkrun svo mikið meira. Stór hluti þeirra 1200 hjúkrunarfræðinga sem vinna á spítalanum vinna við önnur störf en við rúm sjúklingsins. Hjúkrun á háskólasjúkrahúsi felur líka í sér dag- og göngudeildarvinnu, kennslu, þjálfun, umbætur, rannsóknir og faglega þróun í starfi. Til að vera þjóðarsjúkrahús í fremstu röð er mikilvægt að umbótastarf sé sífellt í endurskoðun. Nýsköpun í hjúkrun er því stór þáttur af starfi okkar. Gagnreynd þekking og notkun klínískra leiðbeininga er hluti af skyldum okkar í starfi.

Til að veita betri innsýn í dagleg störf við rúm sjúklingsins langar mig að lýsa einu raunsæju en tilbúnu sjúkratilfelli. Gefum okkur að ég sé á næturvakt á hjartadeildinni og þá um kvöldið fær 65 ára gamall maður (Jón) skyndilega kransæðastíflu heima hjá sér og þarf að gangast undir bráða kransæðavíkkun. Ættingjum hans er vísað upp á hjartadeild en þau eru í ljósi aðstæðna í miklu uppnámi. Ég þarf því að gefa þeim tíma minn fyrirvaralaust, bjóða þau velkomin og útskýra fyrir þeim aðstæður og veita þeim áfallahjálp. Á meðan ég ræði við þau er ég að meta andlegt ástand þeirra út frá ásýnd þeirra, svörum og líkamstjáningu. Þau þurfa að finna á mínu fasi að ég kunni mitt fag, að hér séu þau örugg. Þegar Jón svo kemur á deildina í fylgd hjúkrunarfræðinga eftir kransæðavíkkunina tek ég á móti honum og gæti vel að því að hann finni fyrir öryggi líkt og fjölskylda hans.

Á meðan ég tengi hann í hjartasírita, mæli blóðþrýsting, kem dreypum fyrir, stilli vökvadælur ásamt því að fá upplýsingar um aðgerðina frá hjúkrunarfræðingunum, horfi ég á hvernig hann ber sig, met líkamstjáningu hans, raddbeitingu, athygli, skoða húðlitinn, snerti handlegginn hans, met hvort húð sé rök, þurr, köld eða heit. Ég veiti einnig stungustað hans (eftir kransæðavíkkunina) athygli, sem í þessu tilviki voru bæði í úlnlið og í nára. Ég þarf að meta púlsa í hægri fótlegg þar sem nárastungan er og bera saman hitastig fóta. Ég horfi og les úr hjartsláttarritanum og spyr hann hvernig honum líður.

Þær upplýsingar sem ég fékk frá hjúkrunarfræðingunum leiddu af sér eftirfarandi ályktanir...byggðar á reynslu minni og þekkingu: Hann er í blæðingarhættu, hættu á að fá hjartabilun, gæti mögulega fengið drep í fótlegginn, hann gæti fengið hjartsláttartruflanir - bæði sleglahraðtakt eða hjartsláttarblokk. Ég þarf að fylgjast vel með og vera tilbúin að bregðast við til að hægt sé að grípa inn í tímanlega. Ég þarf þekkingu, reynslu, innsæi og athygli til að draga þessar ályktanir, vita hvernig á að meta hættuna og merki um versnun og hvernig eigi að bregðast við ef út af bregður.

Mitt hlutverk er að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar kransæðastíflunnar og kransæðavíkkunarinnar, frekari veikindi eða jafnvel dauða. Vanmat á ástandi sjúklinga er eitt af því sem getur valdið alvarlegri versnun sem getur leitt til dauða. Þar eru hjúkrunarfræðingar í lykilhlutverki því eftirlitið er á þeirra ábyrgð! Þegar við vorum búin að koma Jóni fyrir hafði ég allar þær upplýsingar sem ég þurfti fyrir áframhaldið og búin að veita fjölskyldu hans þær upplýsingar sem ég hafði á þessu augnabliki. Þar sem var komin nótt var mikilvægt fyrir þau öll að reyna að sofa en þegar þau fóru ræddu þau við mig um ástandið og horfurnar. „Hvað heldur þú? Verður þetta allt í lagi? Er okkur óhætt að fara?“ Ég reyndi að draga úr áhyggjum þeirra en vera samt raunsæ. Hann fékk jú alvarlegt hjartaáfall. „Ég skal passa hann í nótt. Treystið mér.“ 

Ástand Jóns var ekki stöðugt þessa nótt. Honum leið vel, svaf en var með lágan blóðþrýsting og hjartsláttartruflanir. Það er enginn læknir sem hefur aðsetur á hjartadeildinni á kvöldin eða á nóttunni og þó þeir hafi það er enginn sem fylgist með síritaboðum eða lítur til með sjúklingum…nema við óskum sérstaklega eftir því. Ég ráðfærði mig við lækni, en stýrði meðferðinni á Jóni þessa nótt þar sem ég hafði meiri þekkingu en hann á því hvað Jóni var fyrir bestu. Þetta kann að hljóma eins og enn eitt dæmið um hve mikill læknaskortur er á spítalanum. En það er það ekki. Þetta er mitt hlutverk og byggir á menntun minni og reynslu. Hjúkrunarfræðingar eru mannlegir mónitorar sem eru stöðugt að meta og túlka niðurstöður. Jón var lífshættulega veikur þessa nótt og ég vakti yfir honum. Fjórum dögum seinna var hann útskrifaður heim, fór aftur út í lífið. Þakklátur.

Á Landspítala er mikil áhersla lögð á gæði þjónustu og öryggi sjúklinga. Við vitum öll að umhverfi, tæki og húsakostur skiptir gífurlega miklu máli. En það er til lítils að fjárfesta í því ef mannauðurinn er fátæklegur. Þegar við tölum um “mannauð” á Landspítalanum erum við að vísa í þekkingu, reynslu, innsæi og metnað. Eins og ég lýsti hérna áðan...í hjúkrun Jóns...má sjá að hjúkrunarfræðingar standa vörð um mörg mannslíf á degi hverjum.

Við náum best fram gæðum og öryggi með því að við þekkjum sjúklingana okkar, sjúkdóma þeirra, sjúkdómsferli, lyfin, einkennin og skilaboðin sem mælingar og tækin gefa okkur. Við erum statt og stöðugt að lesa í aðstæður og atferli fólks. Við erum stöðugt að meta tölur, einkenni, orð, aðstæður, atferli og túlka þessar upplýsingar...setja þær í samhengi og taka ákvarðanir með hagsmuni sjúklinga og aðstandenda í huga. Að þekkja sjúkling er ekki að vita hvað er uppáhaldsmaturinn hans, hvað hann gerði síðasta sumar eða við hvað hann starfar. Að þekkja sjúkling er að vita hvað hann þarf til að lina verkina hans, í hvaða stellingu hann sefur best þó hann geti ekki sagt það sjálfur, vita hvað linar áhyggjur hans eða minnkar mæði. Að þekkja sjúkling er að hafa öðlast reynslu og þekkingu í heilsufari hans og líðan. Að hafa öðlast innsýn og klínískt nef fyrir velferð hans og öryggi.

Hvað með sjúklingana sem ég er að hitta í fyrsta skipti? Hvað tekur það mig langan tíma að „kynnast“ sjúklingi svo ég nái að tryggja öryggi hans en líka til að veita honum og fjölskyldu hans sem bestu þjónustu? Eins og í tilfelli Jóns tók það mig 3 mínútur. En það gerðist ekki að sjálfu sér.

Á meðan þú sefur vakir yfir þér vel menntaður hjúkrunarfræðingur með líf þitt og velferð að leiðarljósi. Hjúkrunarfræðingar, til hamingju með daginn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×