Körfubolti

Besti leikmaður Boston fékk 2,6 milljóna sekt fyrir að rífa kjaft við áhorfenda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isaiah Thomas.
Isaiah Thomas. Vísir/Getty
Isaiah Thomas hefur farið á kostum með liði Boston Celtics á tímabilinu og hefur kappinn með því komið sér í hóp bestu leikmanna NBA-deildarinnar í körfubolta.

Það er samt ekki alltaf tekið út með sældinni að vera besti leikmaðurinn í þínu liði ekki síst þegar það er komið fram í úrslitakeppnina. Með því ertu orðinn skotskífa fyrir áhorfendur sem vilja komast inn í hausinn á besta manni mótherjanna.

Isaiah Thomas mátti þola það í útileik á móti Washington Wizards í úrslitakeppninni á dögunum en lítið gekk þá upp hjá honum og hann lét stuðningsmann Wizards ná sér upp.

Stuðningsmaður Washington Wizards var fyrir aftan bekkinn hjá Boston Celtics og lét Thomas heyra það allan leikinn.

Isaiah Thomas missti systur sína í bílslysi rétt fyrir fyrsta leik úrslitakeppninnar en ekki er vitað hvort áhorfandinn hafi verið að nota þann sorgaratburð til að kveikja í Thomas.

Annar áhorfandi tók upp myndband af því þegar Isaiah Thomas missti loks stjórn á sér og svaraði áhorfandanum með blótsyrðum og hótunum. „I will f--- you up, and you know that,“ sagði Thomas meðal annars en það kostaði sitt.  

NBA-deildin tók málið fyrir eftir að myndbandið komst á flug á netinu. Þar á bæ var ákveðið að sekta Isaiah Thomas um 25 þúsund dollara eða meira en 2,6 milljónir íslenskra króna.

Isaiah Thomas og félagar í Boston Celtics töpuðu báðum leikjum sínum í Washington en eru komnir í 3-2 eftir sigur í fimmta leiknum í nótt.  Thomas var með 18 stig og 9 stoðsendingar í leik fimm.



NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×