Körfubolti

Peter Öqvist gerði Luleå að Svíþjóðarmeisturum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Öqvist fagnar með sínum hætti í gær.
Peter Öqvist fagnar með sínum hætti í gær. Mynd/BC Luleå
Peter Öqvist, fyrrum þjálfari íslenska landsliðsins í körfubolta, er að gera mjög góða hluti með lið BC Luleå í sænska körfuboltanum.

BC Luleå varð í gær sænskur meistari í fyrsta sinn í heilan áratug þegar liðið vann sannfærandi sigur í fimmta leik sínum á móti Södertälje Kings í úrslitaeinvíginu.  Luleå vann síðast sænska titilinn árið 2007.





Þetta er samt ekki í fyrsta sinn sem Peter Öqvist gerir lið að sænskum meisturum en hann vann sænska meistaratitilin líka vorið 2011 og þá með Sundsvall Dragons. Aðaldrekarnir í því liði voru þeir Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson.  

Öqvist gerði Drekana líka að meisturum 2009 og hefur því unnið sænska titilinn í þrígang sem þjálfari.

Í framhaldinu tók Peter Öqvist síðan við íslenska landsliðinu og margir vilja þakka honum að hluta til fyrir velgengni íslenska landsliðins á síðustu árum en hann breytti bæði leikstíl og hugarfari hópsins. Craig Pedersen tók síðan við af Öqvist og Kanadamaðurinn hefur nú komið íslenska liðinu á tvö Evrópumóti í röð.

Peter Öqvist hætti með íslenska landsliðið eftir tveggja ára starf og vildi frekar vera félagsþjálfari í heimalandi sínu. Hann hefur verið að byggja upp lið BC Luleå síðustu ár.





BC Luleå vann þrjá fyrstu leiki lokaúrslitanna í ár og þetta var því annar leikurinn í röð þar sem liðið gat tryggt sér titilinn. Liðið tapaði með sex stigum í leiknum á undan þar sem liðið fékk á sig 96 stig.

Þeir sem þekkja Peter Öqvist vita að sá varnarleikur var ekki boðlegur enda hélt BC Luleå liði Södertälje Kings í aðeins 65 stigum og tryggði sér sannfærandi sigur. BC Luleå vann alls 11 af 13 úrslitaleikjum sínum í úrslitakeppninni í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×