Viðskipti erlent

Fresta prófunum á sams konar flugvélum og Icelandair hefur pantað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Icelandair hefur pantað sextán Boeing 737 MAX flugvélar.
Icelandair hefur pantað sextán Boeing 737 MAX flugvélar. Vísir/Getty

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur tímabundið hætt prófunum á 737 MAX flugvélum sem fyrirtækið er með í þróun. Ástæðan er möguleg vandræði með íhlut í þotuhreyflum flugvélanna. BBC greinir frá.

Boeing segir að framleiðandi íhlutarins hafi látið vita af mögulegu vandamáli og því hafi verið ákveðið að hætta prófunum í bili á meðan gengið úr skugga um að allt sé í lagi. Boeing segir þó að vandræði með íhlutinn hafi ekki komið í ljós í prófunum hingað til en fyrirtækið vilji hafa vaðið fyrir neðan sig.

Vélarnar eru í þróun og stutt er í afhendingu fyrstu vélarinnar. Boeing segir að þrátt fyrir vandamálið mögulega muni framleiðsla halda áfram. Reiknað er með að fyrsta flugvélin af þessari tegund verði afhent síðar í mánuðinum en indverska flugfélagið SpiceJet mun fá fyrsta eintakið.

MAX-útgáfan mun koma í stað eldri tegunda af 737 flugvéla Boeing en hún á að vera mun sparneytnari en fyrri tegundir. Flugvélin mun koma í tveimur útgáfum sem nefnast einfaldlega 8 og 9.

Fjölmörg flugfélög hafa gengið frá pöntunum á vélunum og þar á meðal er Icelandair. Árið 2013 var gengið frá samningum um kaup á sextán Boeing 737 MAX 8 og MAX 9 flugvélum auk þess sem samið var um kauprétt á átta vélum til viðbótar, að því er segir á heimasíðu Icelandair


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira