Enski boltinn

Mourinho öfundar Ajax í aðdraganda úrslitaleiksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho fagnar sigri í gærkvöldi.
Jose Mourinho fagnar sigri í gærkvöldi. Vísir/Getty
Manchester United komst í gærkvöldi í úrslitaleik Evrópudeildarinnar eftir 1-1 jafntefli í seinni undanúrslitaleiknum á móti spænska liðinu Celta Vigo.

Manchester United mætir hollenska liðinu Ajax í úrslitaleiknum á Friends Arena í Stokkhólmi í Svíþjóð 24. maí næstkomandi.

United getur ekki aðeins unnið titil í leiknum heldur einnig tryggt sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Mourinho hefur verið duglegur að kvarta undan álagi á sitt lið á þessu tímabili og það varð engin breyting á því eftir leikinn í gær.

Hann öfundar lið Ajax af því að fá miklu lengra frí til að safna kröftum fyrir úrslitaleikinn en Ajax leikur sinn síðasta deildarleik á sunnudaginn.

„Þetta tímabil hefur verið svo erfitt fyrir okkur. Það væri því stórkostlegt ef okkur tækist að vinna Evrópudeildina. Það myndi þýða bikar og tækifæri til að komast aftur í Meistaradeildina,“ sagði Jose Mourinho við BBC.

„Ajax klárar deildarkeppnina á sunnudaginn. Þeir hafa því tólf daga til að undirbúa sig. Við eigum aftur á móti eftir að spila þrjá leiki og fáum bara þrjá daga fyrir leikinn,“ sagði Mourinho.

Manchester United mætir Tottenham á White Hart Lane um helgina, heimsækir Southampton á miðvikudaginn kemur og spilar síðan við Crystal Palace í lokaumferð ensku deildarinnar sunnudaginn 21. maí. Úrslitaleikurinn er síðan eins og áður sagði í Stokkhólmi 24. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×