Viðskipti innlent

Stjórn VÍS segir gagnrýni Herdísar byggða á ágiskunum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, stjórnarformaður VÍS, og Herdís Dröfn Fjeldsted, fyrrverandi stjórnarformaður tryggingafélagsins.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, stjórnarformaður VÍS, og Herdís Dröfn Fjeldsted, fyrrverandi stjórnarformaður tryggingafélagsins.
Stjórn VÍS telur gagnrýni Herdísar Drafnar Fjeldsted, fyrrverandi stjórnarformanns tryggingafélagsins, um að stjórnarháttum félagsins sé ábótavant, byggða á ágiskunum. Ástæðan sé sú að Herdís hafi ekki setið stjórnarfund síðan ný stjórn tók við um miðjan mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórninni. Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir og  stjórnarformaður VÍS, var kjörin formaður í mars og skrifar undir tilkynninguna ásamt öðrum stjórnarmönnum. Þar segir að stjórnin hafi ekki gert það að venju sinni að svara fyrir orðróm sem hafi skapast um félagið en telji nauðsynlegt að tjá sig um ummæli Herdísar um stjórnarhætti félagsins og frétta af sölu stórra hluthafa á hlutum í félaginu.

„Gagnrýni fyrrverandi stjórnarformanns VÍS hf., um að stjórnarháttum félagsins sé ábótavant, koma stjórninni á óvart. Stjórnin bendir á, að stjórnarformaðurinn fyrrverandi sat aldrei stjórnarfund í félaginu eftir að ný stjórn skipti með sér verkum í kjölfar aðalfundar í mars sl. Því verður ekki betur séð en að gagnrýnin byggi á ágiskunum,“ segir í tilkynningunni.

Vísir greindi í lok mars frá bréfi sem Svanhildur sendi hluthöfum VÍS en í því kom fram að Herdís hefði viljað stjórnarformannssætið. Herdís, sem sat í stjórn tryggingafélagsins frá nóvember 2015 og þangað til Svanhildur var kjörin, sagði í viðtali við Viðskiptamoggann að hún hefði sagt sig úr stjórn VÍS vegna ólíkr­ar sýn­ar henn­ar og nú­ver­andi stjórn­ar­for­manns fé­lags­ins á stjórn­ar­hætti skráðra og eft­ir­lits­skyldra fyr­ir­tækja.

„Í ljósi nýlegra breytinga á yfirstjórn VÍS og kaupa á hlut í fjárfestingabankanum Kviku hf. fyrr á árinu vill stjórn VÍS hf. árétta, að fjárfesting félagsins í Kviku er skilgreind sem eign í fjárfestingarbók og svo verðu áform. Engin áform eru um breytingu á þeirri stöðu. Núverandi stjórn áformar heldur ekki að skipta sér af einstökum fjárfestingum í fjárfestingarbók félagsins. Slíkt hefur aldrei komið til tals.“

Í tilkynningunni hvetur stjórn VÍS hluthafa sem vilja koma á framfæri ábendingum um stjórnarhætti félagsins, starfsemi þess eða annað er varðar félagið, til að setja sig í samband við stjórnarformanninn, enda sé stjórnin ávallt reiðubúinn að hlýða á sjónarmið hluthafa.

„Markmið stjónar VÍS hf. er að efla rekstur félagins svo félagið verði í fararbroddi, bæði í tryggingar- og fjárfestingarstarfsemi. Með því að hlúa að innviðum félagsins og einbeita okkur að kjarnastarfsemi þess munum við ná góðum árangri. Markmið okkar er að allir hluthafar geti sameinast um að gera betur í rekstri VÍS og verðu það verkefni stjórnar, forstjóra og starfsfólks VÍS á komandi misserum.“


Tengdar fréttir

Herdís Fjeldsted segir sig úr stjórn VÍS

Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, hefur sagt sig úr stjórn tryggingafélagsins VÍS. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar fyrr í kvöld.

Afsögn tengist ekki nýrri stjórn

Jakob Sigurðsson, fráfarandi forstjóri VÍS, segir ákvörðun sína um að hætta störfum hjá VÍS ekki hafa neitt að gera með þau átök eða breytingar sem hafa orðið á stjórn félagsins

Svanhildur segir engin átök í stjórn VÍS

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, stjórnarformaður VÍS, segir að engin átök séu í stjórn tryggingafélagsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún sendi fjölmiðlum nú fyrir stundu vegna umfjöllunar Morgunblaðsins í dag. Þar segir að óánægja sé meðal lífeyrissjóða í hluthafahópi VÍS um að áherslur félagsins færist frá vátryggingum til aukinnar fjárfestingarstarfsemi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×