Sport

UFC þarf lokasvar frá Conor á sunnudag

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Conor og Dana spjalla saman um helgina.
Conor og Dana spjalla saman um helgina. vísir/getty
Sögunni endalausu um hvort Conor McGregor og Floyd Mayweather keppi í hnefaleikum gæti lokið á sunnudag.

Dana White, forseti UFC, segir að Conor verði að svara UFC varðandi skiptingu tekna á milli bardagakappans og UFC í síðasta lagi á sunnudag.

Conor hefur verið í viðræðum við UFC í margar vikur vegna málsins. UFC hefur nú sett fótinn niður. Annað hvort tekur Conor því tilboði sem liggur á borðinu núna eða UFC lokar málinu og horfir fram á veginn.

Þó svo Conor samþykki tilboðið er ekki öruggt að það verði af bardaganum. Náist samkomulag hjá UFC og Conor þá mun UFC færa sig yfir að samningaborðinu hjá umboðsmönnum Mayweather.

„Ég get ekki sinnt þessu máli endalaust. Ég þarf að halda áfram að reka mitt fyrirtæki,“ sagði White sem er þó nokkuð bjartsýnn á að Conor taki tilboðinu.

Ef allt gengur eftir er talið að Conor fái 7,8 milljarða króna í sinn hlut og Mayweather 10,4 milljarða. Mayweather þarf ekki að skipta sínum hlut með neinum.

UFC myndi þá fá 2,6 milljarða í sinn hlut. Þetta eru alvöru upphæðir.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×