Innlent

Bæjarfulltrúar í níu daga ferð til Kína

Sveinn Arnarsson skrifar
Eiríkrur Björn Björgvinsson fer fyrir hópi 11 manna sendinefndar til Sjanghæ í Kína.
Eiríkrur Björn Björgvinsson fer fyrir hópi 11 manna sendinefndar til Sjanghæ í Kína. vísir/ernir

Hálf bæjarstjórn Akureyrar auk bæjarstjóra, aðstoðarmanns hans og fyrrverandi forseta bæjarstjórnar munu fara í níu daga ferð til Sjanghæ í Kína í lok mánaðarins til að kynnast þar fólki og fyrirtækjum og styrkja tengsl Akureyrarkaupstaðar við bæjarfélagið Lingang í Sjanghæ. Forseti bæjarstjórnar segir þessa ferð geta skipt miklu fyrir bæjarfélagið.

Sendinefnd Akureyrar og tengdra aðila, svo sem fyrirtækja í eigu bæjarins að langstærstum hluta, telur alls ellefu einstaklinga. Munu þau fara utan þann 23. maí og áætluð heimkoma er níu dögum síðar.

„Okkur var boðið á viðburð í Kína og við teljum þetta mikilvæga samkomu fyrir Akureyri og þá starfsemi sem við viljum byggja upp hér varðandi siglingar til að mynda. Einnig verða með í för rektor Háskólans á Akureyri og fyrrverandi forseti Íslands,“ segir Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar.

Allir bæjarfulltrúar L-listans fara í ferðina, tveir frá Sjálfstæðisflokki og einn frá Samfylkingu. Að auki fer framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Norðurorku auk bæjarstjóra ásamt aðstoðarmanni.

Af þessum ellefu einstaklingum eru þrjár konur sem fara í ferðina. Matthías segir ferðina munu kosta um 200 þúsund á hvern einstakling, ferðalag frá Akureyri til Kína. Kostnaður er allur greiddur af Akureyrarbæ og tengdum fyrirtækjum.
Fleiri fréttir

Sjá meira