Erlent

Snörp skoðanaskipti um James Comey

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
James Comey var rekinn úr stöðu yfirmanns alríkislögreglunnar (FBI) í Bandaríkjunum í vikunni. Er það einungis í annað skipti sem forseti Bandaríkjanna rekur mann úr þeirri stöðu en það gerði Bill Clinton einnig í tilfelli Williams Sessions.

Comey hafði gegnt stöðunni síðan árið 2013 en áður var hann meðal annars saksóknari. Hinn tröllvaxni Comey, sem er rúmir tveir metrar á hæð, hefur hins vegar ekki verið óumdeildur í starfi.

Tvö stór mál hafa komið inn á borð alríkislögreglunnar sem hafa valdið því að jafnt Demókratar sem Repúblikanar hafa bæði hampað honum og hatað hann. Annars vegar er um að ræða rannsókn á notkun Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðanda Demókrata, á einkatölvupóstþjóni í starfi sínu sem utanríkisráðherra. Hins vegar er um að ræða rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum og meintum tengslum rússneskra stjórnvalda við framboð Donalds Trump, núverandi forseta Bandaríkjanna.



Tölvupóstmálið



Óumdeilanlega hefur tölvupóstmálið valdið Comey meiri vandræðum en Rússamálið.

Stuðningsmenn Trumps, sem og margir aðrir Repúblikanar, eru fullvissir um að Clinton hafi brotið lög þar sem hún var með leyniskjöl á umræddum tölvupóstþjóni. Mátti reglulega heyra köll þeirra á baráttufundum Trumps um að loka ætti Clinton bak við lás og slá. Sjálfur sagði Trump í einum kappræðna forsetaframbjóðendanna að hann myndi sjá til þess að Clinton yrði stungið í steininn.

Það reitti stuðningsmenn Trumps, sem og Trump sjálfan, því til reiði þegar Comey tilkynnti í júlí að alríkislögreglan mælti ekki með því að Clinton yrði ákærð í málinu. Var Comey kallaður „mörður“ og kröfðust margir Repúblikanar þess að hann segði af sér eða yrði rekinn.

Nokkrum mánuðum seinna, nánar tiltekið í október og einungis örstuttu fyrir forsetakosningarnar, tilkynnti Comey að rannsókn á málinu væri hafin á ný vegna þess að nýir tölvupóstar hefðu fundist.

Þrátt fyrir að Comey hafi tilkynnt tveimur dögum fyrir kosningarnar að nýju tölvupóstarnir breyttu ekki ákvörðun FBI eru margir Demókratar, til að mynda Clinton sjálf, á þeirri skoðun að tímasetning Comeys hafi kostað hana forsetaembættið.

Þá var komið að Demókrötum að kalla eftir afsögn Comeys eða eftir því að Barack Obama, sem þá átti rúma tvo mánuði eftir sem forseti, ræki hann úr embætti.



Rússamálið



Hitt málið sem um ræðir, og Clinton telur sömuleiðis að hafi kostað sig sigurinn, eru meint afskipti Rússa af kosningunum og tengsl þeirra við framboð Trumps.

Segir Comey rannsókn hafa leitt í ljós að Rússar hafi vissulega reynt sitt besta til að hafa áhrif á forsetakosningarnar og að það hafi tekist að einhverju leyti.

Þar sem rannsóknin tengist Trump með beinum hætti vilja margir Demókratar meina að ákvörðun Trumps um að reka Comey hafi byggst að miklu leyti á einmitt henni. Hefur Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeild þingsins, til að mynda vefengt þá fullyrðingu Trumps að honum hafi ekki þótt Comey standa sig nógu vel og að hann hafi íhugað brottreksturinn allt frá því að hann tók við embætti forseta.


Tengdar fréttir

Trump þótti Comey einfaldlega ekki standa sig nógu vel

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur rekið yfirmann alríkislögreglunnar. Þótti hann ekki standa sig nógu vel. Alríkislögreglan rannsakar áhrif Rússa á forsetakosningarnar og möguleg tengsl við framboð Trumps. Fjórir koma til greina sem eft




Fleiri fréttir

Sjá meira


×