Handbolti

Óskar Bjarni: Ég vissi að þetta yrði svona í þessum leik, varðandi dómgæsluna

Dagur Sveinn Dagbjartsson skrifar
Óskar Bjarni var ekki ánægður með störf dómaranna í dag.
Óskar Bjarni var ekki ánægður með störf dómaranna í dag. vísir/ernir
Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfara Vals, var eðlilega svekktur eftir tapið fyrir FH í dag. Valsmenn unnu góðan sigur í Hafnarfirði í fyrsta leik liðanna en nú er staðan í einvígi liðanna jöfn.

„Svona er þetta bara. Þetta eru tvö hörkulið og vitað að þetta yrði erfitt. Ég er aðallega svekktur yfir því hvernig við spilum leikinn. Við náum ekki sama varnarleik og við erum þekktir fyrir og við náum ekki sömu markvörslu og í síðustu leikjum,“ sagði Óskar Bjarni sem var heldur ekki sáttur við dómara leiksins.

„Það er allt í lagi að reka menn útaf þegar þeir eru að rífa kjaft en þetta er úrslitakeppnin og menn rífa ekki kjaft þegar um er að ræða eitthvað lítið atriði. Þeir voru að sækja í gul spjöld og tvær mínútur og þannig er ekki handboltinn,“ sagði Óskar Bjarni.

„En við þurfum bara að vinna með okkur sjálfa. Við erum of mikið að kvarta eftir hvern dóm og þegar líður á leiki og lið eru orðin þreytt, þá lítur þetta út eins og agaleysi. Ég og Gulli [annar þjálfara Vals] berum ábyrgð á því. Við megum bara ekki segja neitt. En ég vissi alveg að þetta yrði svona í þessum leik varðandi dómgæsluna.“

„FH kom með nýja hluti og voru flottir. Gísli var sprækur en fær að gera þetta svolítið á fjórum skrefum. En hann er búinn að vera frábær og er einn efnilegasti leikmaður okkar Íslendinga. En þetta er bara veisla og ef einhver hélt að þetta yrði 3-0 fyrir FH eða 3-0 fyrir Val, þá er það bara vitleysa. Tvö frábær lið,“ sagði Óskar Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×