Innlent

Segir umræðu um rafrettur ekki byggja á staðreyndum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Talsverður ágreiningur hefur verið um gagnsemi rafretta og mögulega skaðsemi þeirra. Sumir segja þær hafa valdið byltingu í tóbaksvörnum og er Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir, einn þeirra en hann segir að umræðan um rafrettur á Íslandi sé á villigötum og að hún byggi ekki á vísindum eða staðreyndum. Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi segi fólki ekki satt og fari með rangfærslur um rafrettur.

„Við gefum ekki út skilaboðin rétt og á meðan við gerum það erum við að gefa samt skilaboð um að allar þessar vörur séu jafn hættulegar, sem þær eru alls ekki,“ segir Guðmundur.

Guðmundur stendur fyrir ráðstefnu um byltingar í tóbaksvörnum á morgun í Háskólabíói þar sem niðurstöður tveggja nýlegra skýrslna frá Lýðheilsustofnun Englands og Royal Collage og Physicians.

„Við eigum að promotera það að fólk forði sér frá sígarettum, við eigum að hjálpa fólki sem getur ekki hætt. Við eigum að segja fólki rétt frá og gefa því valið. Við verðum að sýna því heiðarleika. Við sýnum því ekki fordóma eins og við gerum í dag. Fordæmingu og fordóma sem felast í þessum lögum sem ég er að sjá í dag,“ segir Guðmundur og vísar í nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra um rafrettur.

Á ráðstefnunni á morgun mun Aaron Biebert sýna heimildarmynd sína A Billion Lives sem hefur vakið mikla athygli.

„Við ferðuðumst um heiminn, til fjögurra heimsálfa, og tókum viðtöl við heilsusérfræðinga í fremstu röð, þar á meðal fólk frá WHO og World Medical Association. Við spurðum hver sannleikurinn væri því það er svo mikill ruglingur í gangi um þetta. Við komumst að því að það væri mikil brenglun og ruglingur þarna úti um það hvort þessi nýju tæki séu öruggari en reykingar eða hvort þau hjálpi reykingamönnum. Og svarið er: Já, þau hjálpa tvímælalaust reykingamönnum úti um allan heim að hætta að reykja,“ segir Biebert.


Tengdar fréttir

Flutti inn rafrettur og hlaut sekt

Maðurinn var dæmdur til 200 þúsund króna sektar og til að greiða allan sakarkostnað, samtals 981 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×