Innlent

Nýtt skráningarkerfi átti að vera komið

Sæunn Gísladóttir skrifar
Mikil töf hefur verið á afhendingu innfluttra bíla.
Mikil töf hefur verið á afhendingu innfluttra bíla. Vísir/GVA
Nýtt skráningarkerfi til að bæta afgreiðsluhraða í forskráningum bíla átti að vera komið í gagnið á vormánuðum 2017. Það hefur frestast og stefnt er að því að það verði tekið í notkun í haust.

Fréttablaðið hefur undanfarna daga greint frá ósætti bílasala, bílaleiga og annarra aðila við biðtíma eftir forskráningu nýrra bíla. Hagsmunaaðilar hafa átt samtöl við Samgöngustofu um langan afgreiðslutíma og leiðir til að stytta hann undanfarin misseri. Biðtími hefur aukist allverulega undanfarna mánuði og nemur nú allt að mánuði. Áður tók afgreiðsla umsókna einungis tvo til þrjá daga.

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu. Fréttablaðið/GVA
Í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) vegna tafa á forskráningu bifreiða hjá Samgöngustofu kom fram að Samgöngustofa væri að leita leiða til að stytta afgreiðslutímann til framtíðar með því að gera skráningar rafrænar. Gert var ráð fyrir að nýtt kerfi yrði komið í gagnið á vormánuðum 2017, segir í svarinu. 

„Þetta er þvert ofan í það sem okkur var lofað, við höfðum staðfestingu fyrir því úr ráðuneytinu að sett yrði fjármagn í þetta til að tryggja að þetta væri komið í gegn í vor, það hefur ekki gengið í gegn og þess vegna er ástandið eins og það er,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ. 

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segir að aukinn mannafli verði settur í að sinna forskráningum. „Ég tók ákvörðun í vikunni um að stofna til útgjalda þó ég hafi ekki fjárheimildir fyrir því, því að þetta er ástand sem er ekki ásættanlegt. Því miður er okkur mjög þröngt skorinn stakkur í fjárlögum og ekkert tillit tekið til aukinna verkefna."

„Ég er líka að setja í hugbúnaðarvinnu umfram fjárheimildir, við vonum að nýja kerfið verði þá komið með haustinu,“ segir Þórólfur. „Ég er að reyna þetta með þær veiku fjárheimildir sem ég hef í því trausti að fjárveitingavaldið muni láta hluta af þeim miklu tekjum sem ríkið er að njóta af þessum skráningum að sjálfsögðu renna til að kosta til þess sem þarf.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Allt að mánaðarbið eftir nýjum bílum

Langt skráningarferli, óvenjumargir frídagar og árstíðabundin sala til bílaleiga veldur því að mikill fjöldi bíla situr nú fastur hjá flutningafyrirtækjum landsins. Fyrirtækin hafa brugðið á það ráð að stafla bílum upp í gámum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×