Viðskipti innlent

Vilja byggja hótel úr gámum hér á landi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Marriott Courtyard í Ástralíu verður fyrsta gámahótelið á 25 hæðum.
Marriott Courtyard í Ástralíu verður fyrsta gámahótelið á 25 hæðum. Mynd/CIMC Modular Building Systems
„Þetta er ekki eins og gámaeiningar sem vinnuskúrar eru gerðir úr, þetta eru raunverulega einingar sem byggðar eru úr sömu grind og gámar, það er stálburðarvirki, svo er þetta klætt að utan og klætt að innan – bara nákvæmlega eins og hvert annað herbergi,“ segir Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Verkís, en bæði erlendir og innlendir aðilar skoða nú að byggja hótel hér á landi úr gámaeiningum.

Ari segir jafnframt að skoðað sé nú hvort slíkt byggingarefni myndi uppfylla íslenskar byggingarreglugerðir.

Hann segir því töluverðan mun á þessu og hefðbundnum hugmyndum fólks þegar það heyrir orðið gámur. „Þetta eru gámar sem eru keyptir erlendis og eru fullfrágengnir að innan, jafnvel með húsbúnaði líka. Þetta eru í raun og veru fullfrágengnar húseiningar úr stáli.“

Fara þarf í gegnum vottunarferli á Íslandi. „Það er það sem fólk er að vinna í núna, að afla frekari upplýsinga um byggingarefnið sem er í þessu og fara í gegnum það hvort það stenst byggingarreglugerðir,“ segir hann.

Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Verkís. Mynd/Verkís
Ari segir að þetta sé hugsað sem bæði hagkvæmari og hraðari byggingaraðferð. „Lykillinn í þessu er að við erum að skoða, af því að þetta eru mismunandi einingar erlendis, hvort þetta sé allt eitthvað sem uppfyllir þau gæði sem við viljum hafa hér á Íslandi og hvort þetta uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar.“

Ari segir að hægt sé að byggja töluvert stór hótel með þessu byggingarformi. „Menn eru að skoða það að herbergisálmur á hótelum séu gerðar úr þessu en móttökur og annað byggt á hefðbundnari hátt,“ segir Ari.

Hann segir að búið sé að byggja hótel úr svona einingum í Bretlandi, Noregi og Svíþjóð. Hann getur ekki sagt á þessari stundu hvort þetta sé umhverfisvænna en aðrar byggingar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×