Formúla 1

Bílskúrinn: Baráttugleði í Barselóna

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton fannst gaman að vinna keppnina á Spáni, sérstaklega eftir harða baráttu við Sebastian Vettel.
Lewis Hamilton fannst gaman að vinna keppnina á Spáni, sérstaklega eftir harða baráttu við Sebastian Vettel. Vísir/Getty
Lewis Hamilton á Mercedes vann spænska kappasturinn um helgina eftir harða baráttu við Sebastian Vettel á Ferrari. Hvernig fór Hamilton að?

Var hernaðaráætlun Ferrari gölluð? Hefði Hamilton geta kvartað meira og reynt að fá refsingu dæmda á Vettel? Force India á fljúgandi siglingu og hvað varð um hraða Fernando Alonso? Allt þetta ásamt umfjöllun um ökumann keppninnar í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs hér á Vísi.

Vettel tókst þrátt fyrir harða baráttu ekki að halda Hamilton fyrir aftan sig.Vísir/Getty
Hernaðaráætlun Ferrari

Ferrari liðið ætlaði að treysta á að Hamilton kæmist ekki fram úr Vettel á brautinni. Ferrari ætlaði að treysta á að betri brautarstaða dyggði til að halda forystunni sem Vettel vann sér inn strax í ræsingunni. Hins vegar kom Hamilton til góða að Bottas var í kjörstöðu til að þvælast fyrir Vettel og tefja Þjóðverjann. Bottas þröngvaði Vettel í rosalegasta framúr akstur tímabilsins hingað til, hálfur út á grasinu komst Vettel þó fram úr.

Bottas varð til þess að Hamilton var ansi, ansi nálægt því að sigla fram úr Vettel í kringum seinna þjónustuhlé Þjóðverjans. Ferrari átti bara ekki vopn í búri sínu til að svara Hamilton sem var á mjúku dekkjunum undir lokin á meðan Vettel var á þeim meðal-hörðu og hafði minna grip að vinna með.

Hamilton kvartaði ekki mikið yfir akstri Vettel og var kátur í keppnislok.Vísir/Getty
Kvartköll Hamilton

Vettel lokaði hressilega á Hamilton í beygju tvö, þegar Hamilton gerði sig líklegan til að taka forystuna. Raunar þröngvaði vettel Hamilton út af brautinni. Hamilton kvartaði aðeins í talstöðinni en hætti því svo fljótt af tvennum ástæðum; annars vegar vegna þess að hann þurfti að hafa sig allan við strax á eftir til að reyna að mynda bil aftur í Vettel og hins vegar vegna þess að hann áttaði sig kannski á því að á honum hefði ekki verið brotið.

Hefði Hamilton haldið áfram má ætla að dómarar keppninnar hefðu sýnt atvikinu meiri áhuga, strangt tiltekið var Vettel brotlegur, en þegar baráttan er svona hörð á öllum að vera alveg sama. Þegar Hamilton er næstum alveg sama þá er ljóst að ekki var brotið á honum, hann er nú ekki frægur fyrir að þaga þegar honum finnst á sér brotið, þvert á móti!

Hamilton og Vettel sögðu eftir keppnina að barátta þeirra á brautinni hefði verið hörð en að endingu sanngjörn og að svona vildu þeir hafa keppnirnar.

Sergio Perez í Bleika pardusnum.Vísir/Getty
Bleiki pardusinn er fljótur

Bíll Force India liðsins hefur hlotið viðurnefnið bleiki pardusinn, enda einkennandi bleikur á lit. Force India liðið er svokallað sjálfstætt lið, það er að segja það er enginn bílaframleiðandi á bak við liðið. Force India kaupir sínar vélar af Mercedes. Það þýðir vissulega að liðið hefur afl í skottinu.

Báðir ökumenn liðsins, Sergio Perez og Esteban Ocon hafa báðir náð í stig í öllum keppnum tímabilsins og gerðu sér lítið fyrir og náðu í 22 stig á Spáni.

Það er býsna gott, meira en öll önnur lið, að Mercedes undanskyldu. Perez varð fjórði og Ocon varð fimmti. Þvílíkur árangur hjá liðinu sem er sennilega með næst minnst á milli handanna, á eftir Sauber.

Fernando Alonso með spænska fánann í hönd, hefði eflaust viljað fá meira út úr heimakeppni sinni.Vísir/Getty
Fernando Alonso skein svo skært

Heimamaðurinn ók svo listilega í tímatökunni en svo fjaraði fljótt undan í keppninni. Spánverjinn var í sjöunda sæti á ráslínu en strax í fyrstu beygju tapaði hann um sjö sætum. Alonso þurfti að forða sér út af brautinni til að koma í veg fyrir að lenta í árekstri. Hann ók yfir malargryfju sem sennilega hefur skemmt yfirbyggingu bílsins eitthvað og minnkað gripið.

Alonso var svo upptekinn við að berjast við gamla liðsfélaga sinn Felipe Massa sem átti afleidda keppni á Williams bílnum. Alonso endaði reyndar í 12. sæti en það orsakaðist meira af því að Kimi Raikkonen, Max Verstappen og Valtteri Bottas náðu ekki að klára keppnina. Þar í ofanálag átti Williams ömurlega helgi, vægast sagt. Lance Stroll endaði síðastur á Williams bílnum og Massa 13.

Pascal Wehrlein, sem fékk mikla gagnrýni í upphafi tímabils hefur heldur betur svarað fyrir sig.Vísir/Getty
Ökumaður keppninnar

Það er raunar ekki annað hægt en að velja Pascal Wehrlein sem ökumann keppninnar. Á einhvern undraverðan hátt tókst unga þýska ökumanninum að koma Sauber bíl sínum upp í áttunda sæti og hann endaði þar.

Wehrlein hefur eins og margir eflaust muna verið að glíma við meiðsli og missti af fyrstu tveimur keppnum tímabilsins. Hann náði í fjögur stig um helgina, sem eru öll þau stig sem Sauber hefur náð sér í hingað til.


Tengdar fréttir

Svekktur aðdáandi Kimi Raikkonen fékk að hitta hetjuna

Kimi Raikkonen datt út strax í fyrstu beygju spænska kappakstursins eftir samstuð við Max Verstappen og Valtteri Bottas. Raikkonen nýtti tímann til að hitta ungan aðdáenda sem tók brotthvarf Finnans nærri sér.

Hamilton: Svona á kappakstur að vera

Lewis Hamilton vann sína 55. keppni í Formúlu 1 í dag. Hann vann með klókindum liðsins og frábærum tilþrifum. Hver sagði hvað eftir keppnina?

Lewis Hamilton vann á Spáni

Lewis Hamilton á Mercedes kom fyrstur í mark í spænska kappakstrinum. Sebastian Vettel á Ferrari varð annar og Daniel Ricciardo á Red Bull varð þriðji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×