Fastir pennar

Bláa pillan

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Í kvikmyndinni Matrix sem var afar vinsæl um gjörvalla heimsbyggðina um síðustu aldamót finnur aðalsöguhetjan Neo á sér að það er eitthvað mikið að veröldinni sem hann lifir í. Hann á erfitt með að ákvarða það en einkennin eru mörg.

Veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir í íslensku heilbrigðiskerfi er svipaður. Okkur er talin trú um að stjórnvöld vilji standa vörð um hið ríkisrekna kerfi og það standi ekki til að byggja upp einkarekið kerfi á kostnað þess. Að ýja að öðru þykir dónaskapur. Samt eru margvísleg teikn á lofti um hið gagnstæða. Mörg einkenni sem benda til þess að veröldin sé önnur en sú sem okkur hefur verið talin trú um að sé sönn og áþreifanleg.

Að mati Birgis Jakobssonar landlæknis er stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum það óljós að hún býður upp á stefnuleysi í samningsgerð Sjúkratrygginga Íslands við einkaaðila í heilbrigðisþjónustu. Landlæknir fær ekki séð að hagsmunir sjúklinga séu hafðir að leiðarljósi í þessum samningum. „Við höfum komið okkur í þessa stöðu á mörgum árum vegna þess að við höfum svelt opinbera kerfið en á sama tíma hefur verið aukið í og gefið í í einkarekinni þjónustu,“ sagði Birgir í fréttum Stöðvar 2 á föstudag.

Áhyggjur landlæknis eru réttmætar. Á sama tíma og skattfé er dælt í samninga Sjúkratrygginga Íslands við einkastofur sérfræðilækna, Klíníkina og önnur einkarekin heilbrigðisfyrirtæki sem vaxa án þarfagreiningar og skilgreindra markmiða við kaup á heilbrigðisþjónustu er opinbera kerfið svelt. Landspítalinn fær einn milljarð króna hér og annan þar og ráðherrar berja sér á brjóst vegna stóraukinna framlaga til heilbrigðismála. Þeir sem búa við sterka lausafjárstöðu geta stundað aðgerða­túrisma og leitað sér lækninga erlendis á kostnað skattgreiðenda á grundvelli svokallaðrar biðlistatilskipunar. Þetta eru nokkrar birtingarmyndir á kerfisbundnu niðurbroti ríkisrekna heilbrigðiskerfisins. Veruleikinn er annar en sá sem okkur er talin trú um.

Þetta gerist á vakt hægristjórnar. Vandamál vinstriflokkanna er að þeir eru ekki trúverðugir varðhundar heilbrigðiskerfisins. Kerfið var holað að innan á þeirra vakt líka. Það er einn af samverkandi þáttum þess að sósíaldemókratar á Íslandi hafa tvístrast í margar einingar og geta ekki lotið stöðugri forystu. Þeir brenndu sitt eigið pólitíska vörumerki á báli niðurskurðar í velferðarkerfinu.

Hinn dularfulli Morpheus býður Neo upp á tvo valkosti í Matrix. Neo getur tekið bláu pilluna og lifað áfram í draumheimi. Eða rauðu pilluna, vaknað til lífsins og fengið að heyra hráan sannleikann um veröldina sem hann lifir í.

Við vitum að það er eitthvað mikið að heilbrigðiskerfinu. Við getum tekið bláu pilluna frá ríkisstjórninni, kyngt henni og haldið áfram í draumheimi eins og ekkert hafi í skorist. Þá er hægt að halda áfram að einkavæða kerfið eitt skref í einu. Eða við getum tekið rauðu pilluna, yfirgefið draumheiminn, spyrnt við fótum og neitað að lifa í lygi.






×