Enski boltinn

Hommar í fótbolta þora ekki út úr skápnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Greg Clarke er hundfúll yfir því að hommarnir þori ekki að tala við hann.
Greg Clarke er hundfúll yfir því að hommarnir þori ekki að tala við hann. vísir/getty
Greg Clarke, formaður enska knattspyrnusambandsins, segir að því miður gangi honum ekkert að draga samkynhneigða fótboltakarla til sín í viðtöl.

Á þeim níu mánuðum sem Clarke hefur verið formaður hefur hann látið málefni samkynhneigðra knattspyrnumanna sig varða. Clarke vill sjá hommana þora að stíga skrefið og brjóta múrana í boltanum.

„Við erum að reyna að koma á samskiptum við þá. Tala við þá. Því miður þá virðast þeir vera hræddir að tala við mig,“ sagði Clarke.

„Á níu mánuðum hef ég hitt fjölda samkynhneigðra úr hinum ýmsu íþróttagreinum en ég hef ekki talað við einn homma úr fótboltaheiminum.

„Ég hef ekki fundið einn homma sem treystir sér til þess að eiga einkafund með mér. Ég hef sent út þau skilaboð að ég sé til í að koma þangað sem viðkomandi vill hitta mig. Skiptir engu máli þó svo ég þurfi að ferðast á fundinn.“

Hitzlsperger fagnar í leik með Villa. Hann kom út úr skápnum eftir að ferlinum lauk.vísir/getty
Lesbíur í knattspyrnuheiminum eru ekki eins feimnar en það ætlar að taka tíma að fá karlana til að stíga út úr skápnum.

„Konunum líður vel og þær eru öruggar með að stíga fram og segjast vera samkynhneigðar. Það er ekki allt eins og það á að vera í karlaboltanum. Ef það væri allt í lagi þar þá myndu menn stíga fram og við gætum rætt við þá.“

Justin Fashanu var fyrsti fótboltamaðurinn á Englandi til þess að koma út úr skápnum en aðeins eftir að hann var hættur að spila. Hann fyrirfór sér síðan árið 1998. Þá aðeins 37 ára gamall.

Þjóðverjinn Thomas Hitzlsperger lék lengi í enska boltanum og hann kom út úr skápnum eftir að hafa lagt skóna á hilluna og hefur reynt að aðstoða aðra fótboltamenn við að þora að taka skrefið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×