Erlent

Lokað á „rússneska Facebook“ í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Petro Pórósjenkó Úkraínuforseti.
Petro Pórósjenkó Úkraínuforseti. Vísir/AFP

Úkraínsk yfirvöld hafa lokað á rússneska samfélagsmiðilinn og leitarvélina VK. VK nýtur mikilla vinsælda í Rússlandi og hefur oft verið kallað svar Rússlands við Facebook.

Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu, hefur nú skrifað undir tilskipun sem banna VK í landinu næstu þrjú árin.

Úkraínsk yfirvöld hafa jafnt og þétt bannað fleiri vörur og fleira vegna stuðnings rússneskra stjórnvalda við aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins. Þá hafa yfirvöld fjölgað mönnum á lista yfir þá sem neitað er um inngöngu í landið eftir að hafa lýst yfir stuðningi við innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt ákvörðun Úkraínustjórnar að loka á síður og segja það vera brot á tjáningarfrelsinu. Í frétt Aftonbladet kemur fram að viðbrögð úkraínsks almennings við tilskipun Porosjenkó um að loka á VK hafi almennt verið neikvæð.
Fleiri fréttir

Sjá meira