Innlent

Segir fyrirslátt ráðherra bitna á aðstöðu hælisleitenda

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Kolbeini hugnast ekki afstaða Sigríðar Á Andersen, dómsmálaráðherra, sem birtist í svari við fyrirspurn hans.
Kolbeini hugnast ekki afstaða Sigríðar Á Andersen, dómsmálaráðherra, sem birtist í svari við fyrirspurn hans. Mynd/samsett
„Það er eins og það sé búið að sætta sig við það að þessi hópur eigi ekki að lifa við mannsæmandi aðstæður,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, um svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn hans um aðbúnað fólks sem sækir hér um alþjóðlega vernd.

Á undanförnum fimm árum hefur einn umsækjandi um vernd látist á meðan málsmeðferð stóð og tveir til viðbótar létust eftir að málsmeðferð lauk.

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kolbeins.

Í fyrirspurninni beinir Kolbeinn því til ráðherra hvernig móttöku einstaklinga í viðkvæmri stöðu sé háttað.

Í svari við fyrirspurninni kemur meðal annars fram að Útlendingastofnun hefur ekki yfir að ráða sérstöku búsetuúrræði fyrir viðkvæma einstaklinga.

„Eftir megni sé reynt að tryggja hverjum og einum búsetuúrræði eftir þörfum í þeim úrræðum sem stofnunin hefur yfir að ráða, eða að þeir fá að dvelja lengur í móttökuúrræðinu í Bæjarhrauni í Hafnarfirði svo betur sé hægt að fylgjast með þeim,“ segir þar.

Í fyrra þurfti að koma upp tímabundnu gistiskýli fyrir hælisleitendur á Krókhálsi þar sem lögregluskólinn var áður til húsa. Umsóknir um vernd voru orðnar það margar.
Þá kemur fram í svarinu að dómsmálaráðherra sé ekki mótfallinn banni Útlendingastofnunar við heimsóknum til hælisleitenda.

„Þetta slær mig þannig að lýsingin á húsakostunum er raunsönn en það sem mér þykir verra er afstaða dómsmálaráðherra til þess,“ segir Kolbeinn. „Hér segir í svarinu að í búsetuúrræðum búi fólk þröngt, tveir eða fleiri í herbergi og ekki er til aðstaða til þess að taka á móti gestum og mér þykir eðlilegt að álykta svo að það þurfi að bæta búsetuúrræðin og húsakostinn þannig að það sé hægt að lifa mannsæmandi lífi og fá til sín gesti ef maður vill en dómsmálaráðherra virðist draga þá ályktun að húsakostinum sé ekki hægt að breyta og því þurfi að halda í þessa reglu áfram.“

„Það á að vera þessu fólki sem þarna býr í sjálfsvald sett hvort það fær til sín gesti eða ekki,“ segir Kolbeinn. „Það að eitthvað eins og þröngur húsakostur sé tilgreindur sem ástæða fyrir því þykir mér bagalegt og svo að því sé bætt við að þetta sé gert með hagsmuni þeirra í huga. Mér finnst þetta fyrirsláttur og lýsa ákveðinni nauðhyggju í þessum málaflokki,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×