Innlent

Fær fjórar vikur til að skila mati á ástandi Thomasar Møller

Hulda Hólmkelsdóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Thomas Møller Olsen við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness á dögunum.
Thomas Møller Olsen við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness á dögunum. vísir/vilhelm
Ragnar Jónsson, íslenskur bæklunarlæknir og lögfræðingur, hefur verið dómkvaddur til að leggja mat á ástand Thomasar Møller Olsen sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur þann 14. janúar. Niðurstaða hans á að liggja fyrir þann 16. júní næstkomandi. 

Þetta kom fram við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu lætur verjandi Thomasar reyna á það hvort Thomas hafi verið líkmlega fær um að bana Birnu. Þá á hann að svara tveimur spurningum sem verjandi Thomasar hefur lagt fram.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi hins grunaða, við fyrirtöku málsins í síðustu viku.vísir/anton brink
Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, óskaði við fyrirtöku málsins fyrir viku eftir því að fá að leggja spurningar fram fyrir bæklunarlækni annars vegar og réttarmeinafræðing hins vegar.

Óskað hefur verið eftir því að sænskur réttarmeinafræðingur svari fimm spurningum verjandans. Það á að liggja fyrir við næstu fyrirtöku í málinu í næstu viku, þriðjudaginn 23. maí. Þá verður sömuleiðis tekin fyrir krafa ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhald.

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari sem sækir málið, lagði í dag fram viðbótargreinargerð vegna notkunar á símum nóttina sem Birna fór upp í bíl Thomasar. Þá er sakavottorð Grænlendingsins í þýðingu.

Næsta fyrirtaka í málinu verður sem fyrr segir á þriðjudaginn í næstu viku. Telja má líklegt að aðalmeðferð í málinu fari ekki fram fyrr en síðla sumars eða í haust.

Thomas var ekki viðstaddur fyrirtöku málsins í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×