Innlent

Hannaði umbunarspjöld til að verðlauna þá sem nauðga ekki

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ósk Gunnlaugsdóttir hefur tekið upp á því að útbúa umbunarspjöld þar sem fólk safnar sér límmiðum fyrir að nauðga ekki.
Ósk Gunnlaugsdóttir hefur tekið upp á því að útbúa umbunarspjöld þar sem fólk safnar sér límmiðum fyrir að nauðga ekki. vísir/eyþór
„Þú færð þér spjald, þetta er svona eins og póstkort. Og ef þú nauðgar ekki þá færðu límmiða,“ segir Ósk Gunnlaugsdóttir myndlistar- og kvikmyndagerðarkona í samtali við Vísi. Ósk hefur tekið upp á því að útbúa umbunarspjöld þar sem fólk safnar sér límmiðum fyrir að nauðga ekki.

Hún segir þetta vera sína nálgun um hvernig megi nota límmiða til að sporna við nauðgunum, en herferð Secret Solstice, sem gengur út á að vekja athygli á þeirri aðferð nauðgara sem fara um og byrla ólyfjan í glö0s þeirra sem eru úti á lífinu, hefur verið mikið gagnrýnd á samfélagsmiðlum síðustu daga.

„Mér fannst hún beinast í ranga átt. Þetta er sniðug hugmynd að nota límmiða, en einhvern veginn ekki verið að fókusera á réttan stað,“ segir Ósk.

„Þannig að ég fór að hugsa hvað myndi ég gera með svona límmiða. Og þá datt mér í hug að vera með svona umbunarkerfi.“

Sjá einnig: Varstu ekki örugglega með límmiða yfir glasinu þínu?

Hún segir þó að sínu framtaki sé ekki beint persónulega gegn Secret Solstice eða Þórunni Antoníu, kynningarstjóra hátíðarinnar, sem hefur talað fyrir herferðinni.

„Þetta er bara annað innleg inn í umræðuna um hvernig límmiðar geta komið í veg fyrir kynferðisofbeldi. Fólk má nota þeirra límmiða eins og því sýnist en það má líka bara nota mína límmiða

Svona líta límmiðaspjöldin útMynd/Ósk Gunnlaugsdóttir
Spjöldin sem Ósk hefur látið útbúa eru eins og nokkurs konar póstkort. Hún segir að áhugasamir geti nálgast þau hjá sér ef fólk telur sig vera í áhættuhópi um að nauðga einhverjum.

Ósk steig sjálf fram í viðtali við Stundina árið 2015 og sagði frá nauðgun sem varð fyrir af hendi landsþekkts manns. Hún segir skilaboðin sem herferð Secret Solstice sendir, meðvitað eða ómeðvitað, vera stuðandi fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

„Þetta snertir mig persónulega. Mér finnst þetta gefa þau skilaboð, sem þolandi byrlunar og nauðgunar, að ég hefði getað gert eitthvað til að koma í veg fyrir að einhver annar ákvað að brjóta á mér. Og ég tel það bara ekki rétt skilaboð. Það getur ekki verið á minni ábyrgð að einhver annar taki einhverja ákvörðun. Þannig að skilaboðin ættu kannski frekar að vera til þess sem ætlar að taka þá ákvörðun að brjóta á einhverjum öðrum,“ segir Ósk.

„Ástæðan fyrir því að fólk bregst svona harkalega við þessu er bara að fólk hefur lent í þessu. Fólk á þessar sáru tilfinningar um að aðrir tóku ákvarðanir um að brjóta á þeim. Og þarna er verið að segja „ef þið hefðuð nú bara passað ykkur aðeins betur“ og það er mjög sárt að fá þau skilaboð. Það stingur.“

Ósk ræddi reynslu sína af því að vera byrluð ólyfjan við Fréttablaðið árið 2013. Það gerðist þegar hún fór í fyrsta sinn út að skemmta sér eftir að pabbi hennar lést. Hún segist ekki hafa treyst sér til að drekka en en fengið sér einn bjór.

„Ég ákvað að fá mér einn Wildbrew þó að ég væri á bíl. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég gerði, en við dönsuðum stelpurnar og svo settumst við niður við borð með nokkrum vinnufélögum. Stuttu eftir að ég settist fór mér að líða illa. Ég ákvað að fara á klósettið svona aðeins að ná mér. Þar hertist hjartslátturinn og mig svimaði og ég vissi ekkert hvað var að gerast. Ég sagði vinkonu minni að mér liði illa og ég yrði að fara heim. Ég komst hins vegar ekki út af staðnum þar sem ég missti alla stjórn. Ég man óljóst eftir því að hafa verið sett inn í bíl yfirmanns míns og ég man næst eftir mér uppi á Slysó. Þar var ekkert gert, engar prufur teknar og það var komið fram við mig eins og ég væri bara drukkin. Ég talaði svo ekki um þetta við nokkurn mann því það var einhver skömm sem fylgdi þessu.“


Tengdar fréttir

Eru saman í liði gegn nauðgunum

Þórunn Antonía Magnúsdóttir vill koma í veg fyrir að fólki séu byrluð nauðgunarlyf. Hún lét gera límmiða sem settur er ofan á glös. Guðni Th. er verndari verkefnisins. Dillon, B5 og Prikið taka þátt.

Varstu ekki örugglega með límmiða yfir glasinu þínu?

Nöfnurnar Hildur Sverrisdóttir þingmaður og Hildur Lilliendahl eru meðal þeirra sem eru efins um að límmiðar til að setja á glös á skemmtistöðum bæjarins til að sporna við nauðgunarlyfum sé skref í rétta átt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×