Skoðun

Engan afslátt af kynjakvótum

Eva Baldursdóttir skrifar
Kynjahlutföll í stjórnum félaga með fleiri en 50 starfsmenn eiga að vera 40%/60% samkvæmt hlutafélagalöggjöfinni. Nýjustu tölur Hagstofunnar sýna hins vegar að þessum áskilnaði laganna er ekki framfylgt. Konum í stjórnum fjölgaði eftir lagasetninguna en hinni lögbundnu skiptingu hefur ekki verið náð. Hlutfall kvenna í stjórnum hefur almennt staðið í stað í um 32% í fjögur ár. Þessi áskilnaður var lögleiddur árið 2010 og fengu viðkomandi fyrirtæki þrjú ár til að bregðast við. Dágóður tími.

Þegar félag er stofnað þurfa, samkvæmt hlutafélagalögum, að fylgja upplýsingar um stjórnarmenn. Þá þarf að tilkynna um allar breytingar á stjórn til hlutafélagaskrár. Ef skráning fylgir ekki fyrirmælum laganna er heimilt að synja um skráningu. Hlutafélagaskrá hefur einnig heimild til að skylda félag til að bregðast við ef lögunum er ekki fylgt, að viðlögðum dagsektum. Regla hlutafélagalaga um kynjahlutföllin í stjórnum þessara stærri félaga er eins skýr og þær verða.

Kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja er ekki marklaus stefnuyfirlýsing. Um er að ræða sett lög frá Alþingi. Í umhverfi félagaréttar láta menn sér ekki í léttu rúmi liggja að fylgja öðrum formreglum sem gilda um rekstur félaga. En meinbugir virðast vera á því að skýrum lagareglum sé fylgt þegar það kemur að jafnrétti. Hvað veldur því? Lög eru ekki þess eðlis að við höfum sjálfdæmi um það hvort við fylgjum þeim eða ekki. Við undirgöngumst samfélagssáttmála þar sem löggjafinn ákveður hvernig kerfi við búum við. Ég hef t.d. ekki val um að keyra á 50 km hraða þar sem er 30 km hámarkshraði, óháð minni persónulegu skoðun á því.

Stjórnvöld og eftirlitsaðilar þurfa að fylgja því fast eftir að farið sé að lögum. Það á ekki að veita afslátt af þessum ákvæðum hlutafélagalaga frekar en öðrum. Ég hvet hlutafélagaskrá að beita þeim úrræðum sem hún hefur og taka þessu ekki af léttúð. Ég skora á stjórnvöld, Alþingi og almenning að veita aðhald til að tryggja framfylgd þess að jafna stöðu kynjanna á einkamarkaði.




Skoðun

Sjá meira


×