Körfubolti

"Ég er ekki óheiðarlegur leikmaður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pachulia kom til Golden State fyrir þetta tímabil.
Pachulia kom til Golden State fyrir þetta tímabil. vísir/getty

Zaza Pachulia, georgíski miðherjinn hjá Golden State Warriors, segist ekki vera óheiðarlegur leikmaður.

Pachulia var harðlega gagnrýndur eftir fyrsta leik Golden State og San Antonio Spurs í úrslitum Vesturdeildar NBA í fyrrakvöld.

Um miðjan 3. leikhluta pressaði Pachulia Kawhi Leonard er hann fór upp í stökkskot. Þegar Leonard var búinn að skjóta boltanum tók Pachulia aukaskref í átt að San Antonio-manninum sem lenti á fætinum á Georgíumanninum og sneri sig illa.

Á þessum tímapunkti var San Antonio 23 stigum yfir. Þetta atvik breytti hins vegar leiknum, Leonard spilaði ekki meira með og Golden State endaði á því að vinna leikinn 113-111. Ekki er búist við því að Leonard spili með í öðrum leik liðanna í nótt.

Gregg Popovich, þjálfari San Antonio, var afar harðorður í garð Pachulia eftir leikinn á sunnudagskvöldið og sagði að það sem hann gerði hafi verið hættulegt og óíþróttamannslegt. Georgíumaðurinn þvertekur hins vegar fyrir það að vera óþokki inni á vellinum.

„Á mínum 14 árum í deildinni hef ég alltaf spilað fast og gefið allt sem ég á í leikina,“ sagði Pachulia. „Svo ég er ekki tilbúinn að kvitta undir það að ég sé óheiðarlegur leikmaður. Ég elska leikinn og spila af krafti. Það var mér kennt.“

Pachulia skoraði 11 stig, tók níu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum á sunnudagskvöldið.

NBA

Tengdar fréttir

Curry gladdi sorgmædda foreldra

Sextán ára stúlka lést í Kalforníu á dögunum er hún var að taka þátt í körfuboltaleik. Fjölskyldan leitaði eftir stuðningi frá Stephen Curry, leikmanni Golden State, og fékk hann.

Hrun hjá San Antonio og Golden State komið yfir

San Antonio Spurs fór afar illa að ráði sínu gegn Golden State Warriors í fyrsta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildar NBA í Oracle Arena í kvöld. Lokatölur 113-111, Golden State í vil.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira