Skoðun

Svona gera menn alls ekki

Jóhannes Karl Sveinsson skrifar
Fjölbrautaskólinn við Ármúla vaknaði upp við það fyrir skemmstu að búið væri að leggja hann niður. Kennarar og starfsfólk sem í áratugi hefur unnið að því að sinna mjög mikilvægum þörfum í framhaldsskólakerfinu fékk þau skilaboð í gegnum forsíðu Fréttablaðsins að þeirra væri ekki lengur þörf. Einhver óljós og algjörlega órædd rök um hagræðingu og fækkun nemenda á framhaldsskólastigi hafa verið nefnd sem ástæðan fyrir þessu. Einnig er helst að skilja að aðalvandamálið núna sé ótímabær umræða!

Hvers vegna FÁ varð að vera fyrsta fórnarlambið í þessari endurskipulagningu menntakerfisins er ennþá óútskýrt. Það eru til margir smærri og óhagkvæmari skólar í landinu. FÁ er vel rekinn skóli.

Um langt árabil hefur skólinn tekið að sér það hlutverk að sinna fjölbreyttum hópi nemenda, meðal annars þeim sem fallið hafa úr námi annars staðar og stór hluti námsmanna er af erlendu bergi brotinn. Það má segja að skólinn hafi glímt við ímyndarvanda vegna þessa en það verður þó að segja það eins og er.

Kannski á FÁ enga talsmenn innan kerfisins vegna þessa hlutverks. Hlutverk sem gerir hann enn mikilvægari en ella. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með því að hópur kennara hefur lagt lífið og sálina í að taka þetta verkefni að sér. Þá hefur skólinn verið í fararbroddi í fjarnámi. Aðrir virðast hafa séð tækifæri í að ná þeim bita til sín.

Án þess að nokkur opinber umræða hafi farið fram um málið er þessum tíðindum slengt fram. Grjóthörð yfirtaka og ekkert múður. Tækniskólinn er örugglega frábær skóli en ég veit ekki til þess að hann hafi neinar forsendur til að halda áfram því góða og mikilvæga starfi sem unnið hefur verið hjá FÁ. Ekki gleyma því að skólastarf byggist fyrst og fremst á góðum kennurum og réttu viðhorfi þeirra gagnvart nemendum.

Höfundur er stúdent úr FÁ og skólanefndarmaður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×