Handbolti

Halldór: Valsmenn komast upp með hreint út sagt endalausar sóknir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Halldór var ósáttur með margt í leik FH í kvöld.
Halldór var ósáttur með margt í leik FH í kvöld. vísir/eyþór
„Við ætluðum okkur að koma inn í þennan leik og ná forskotinu í einvíginu en stærstan hluta leiksins erum við einfaldlega ólíkir sjálfum okkur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, svekktur eftir fimm marka tap gegn Valsmönnum í kvöld.

Halldór tók undir að það hefði vantað herslumuninn hjá FH  í kvöld.

„Alveg klárlega, við urðum undir á mörgum sviðum í dag og það er úr nógu að taka. Þeir eru að verja vel á meðan við fáum enga markvörslu undan velli, við erum að kasta boltanum frá okkur á meðan þeir fá að spila og spila alveg hreint endalausa sóknir,“ sagði Halldór og bætti við:

„Þeir fengu endalaust að reyna að finna opnanir og komast upp með það og fara svo að taka fráköst þegar við erum sofandi. Þannig misstum við leikinn frá okkur. Þeir stjórnuðu algjörlega hraðanum og leiknum og í sókninni fórum við að reyna að flýta okkur allt of mikið. Við fórum að taka tækifæri að óþörfu og skiluðum boltanum illa frá okkur.“

Sjá einnig:Umfjöllun og viðtöl: FH - Valur 24-29 | Valsmenn komnir í lykilstöðu

Framundan er úrslitaleikur fyrir FH, allt annað en sigur þýðir sumarfrí.

„Ég þarf að skoða þennan leik vel en við erum komnir í þá stöðu að það er allt undir í næsta leik. Við getum alveg unnið í Valshöllinni en við þurfum að eiga mun betri leik en í dag.“

Halldór var óánægður með línuna sem dómararnir tóku á brottvísunum í seinni hálfleik.

„Það voru gróf brot, Valsararnir eru grófir og við mættum því en mér fannst þeir komast upp með mjög margt í seinni hálfleik á tveimur brottvísunum. Það má alveg leyfa mönnum að berjast en það verður að halda sömu línu. Þegar menn fá tvisvar tvær í fyrri og spila sömu vörn í seinni þá er líklegt að það kalli eftir brottvísun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×