Enski boltinn

Aron Einar finnur fyrir árunum níu á Englandi og íhugar að taka aftur upp handboltann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það er alveg ástæða fyrir ævintýralegum innköstum Arons Einars.
Það er alveg ástæða fyrir ævintýralegum innköstum Arons Einars. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, leikmaður Cardiff og landsliðsfyrirliði Íslands í fótbolta, býst við að vera áfram hjá velska liðinu í B-deildinni á Englandi en hann var algjör lykilmaður þar á síðustu leiktíð undir stjórn Neils Warnocks.

Aron er búinn að spila á Englandi síðan hann var 19 ára gamall en Championship-deildin er ein sú erfiðasta sem hægt er að spila í. Leikirnir eru 46 á hverju tímabili og harkan mikil. Þetta er farið að taka sinn toll viðurkennir Akureyringurinn.

„Ég er búinn að vera á Englandi í níu ár. Það var eitt ár sem við vorum í úrvalsdeildinni en annars er ég búinn að spila í átta ár í Championship-deildinni. Þetta er aðeins farið að taka á líkamann,“ segir Aron Einar í viðtali við Harmageddon en hann fagnaði 28 ára afmæli sínu á dögunum.

„Ég er ekki orðinn neitt gamall en ég er alveg farinn að finna fyrir þessum 400 deildarleikjum sem ég hef spilað.“

Aron Einar ætlar stefnir á leikjamet Rúnars Kristinssonar sem eru 104 leikir.vísir/getty

Líklega áfram hjá Cardiff

Aron Einar spilaði sinn 70. landsleik á dögunum en hann er langt frá því byrjaður að íhuga að leggja landsliðsskóna á hilluna til að framlengja sjálfan fótboltaferilinn.

„Ég er ekki alveg á þeim stað enn þá. Það er leikjamet þarna sem ég á eftir að ná. Það er mér efst í huga,“ segir Aron Einar sem býst við að taka að minnsta kosti hálft ár til viðbótar með Cardiff.

„Ég á eitt ár eftir af samningnum og ég ræddi við Warnock áður en ég fór heim. Hann bauð mér að framlengja um eitt ár til viðbótar. Ég sagðist bara ætla að skoða það en svo veit maður aldrei hvernig stöðu maður verður í janúar. Þetta er rólegt eins og er og ég er ekkert að drífa mig neitt en hugsanlega tek ég hálft ár í viðbót. Ég reikna ekki með því að Warnock selji mig í sumar.“

Aron Einar var á sínum yngri árum frábær handboltamaður en bróðir hans, Arnór Þór Gunnarsson er hægri hornamaður íslenska landsliðsins og leikmaður Bergischer í Þýskalandi. Aron elskar handbolta og hefur hugsað um að taka hann aftur upp þegar fótboltaferlinum lýkur.

„Um daginn hugsaði ég að ég væri til í að taka eitt ár í handboltanum. Taka bara eitt ár einhversstaðar. Það gæti samt breyst á næsta ári. Ég bara veit það ekki,“ segir Aron aðspurður um hvað gerist þegar ferlinum lýkur í fótboltanum.

„Pabbi er mikill handboltamaður og var smá fúll þegar ég ákvað að velja fótboltann. Ég held hann hafi jafnað sig í leiknum á móti Englandi,“ segir Aron Einar Gunnarsson.

Allt viðtalið má heyra hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×