Handbolti

Dómararnir rugluðust á bræðrunum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bræðurnir Orri Freyr Gíslason og Ýmir Örn Gíslason.
Bræðurnir Orri Freyr Gíslason og Ýmir Örn Gíslason. Vísir/Eyþór
Valsmenn eru aðeins einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum eftir fimm marka sigur í leik þrjú í gærkvöldi. Varnarleikur liðsins er frábær og menn vinna svo vel saman sem ein liðsheild að dómararnir eru farnir að ruglast á mönnum þegar það er komið að því að senda menn í skammakrókinn.

Bræðurnir Orri Freyr Gíslason og Ýmir Örn Gíslason í liði Vals eru báðir frábærir varnarmenn sem láta vel finna fyrir sér á vellinum.

Þeir Orri Freyr og Ýmir þekkja það því báðir að vera sendir útaf í tvær mínútur fyrir of harðan leik. Það gerðist þrisvar sinnum í sigri Vals á FH í Kaplakrika í gær en eitt skiptið þá fór bara ekki réttur bróðir útaf.

RÚV vekur athygli á mistökum dómaraparsins í leiknum þegar dómararnir Heimir Örn Árnason og Sigurður Hjörtur Þrastarson ráku Ými útaf í tvær mínútur í stað Orra.

Leikurinn var stöðvaður eftir að FH-ingurinn Einar Rafn Eiðsson fékk högg frá Orra. Þegar Ýmir var sendur í skammakrókinn þá var hann eðlilega mjög hissa.

Orri Freyr Gíslason spilar númer 3 en Ýmir Örn Gíslason er í treyju númer 33. Þeir spila vanalega mjög nálægt hvorum öðrum í Valsvörninni.












Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×