Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Breiðablik 1-0 | Bitlausir Blikar úr leik í bikarnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hákon Ingi Jónsson fiskaði vítaspyrnuna sem réði úrslitum.
Hákon Ingi Jónsson fiskaði vítaspyrnuna sem réði úrslitum. vísir/andri marinó

Ófarir Breiðabliks halda áfram en í kvöld tapaði liðið 1-0 fyrir Fylki í 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla, á Floridana-vellinum í Árbænum.

Daði Ólafsson skoraði eina mark leiksins á 37. mínútu úr vítaspyrnu sem dæmd var á Damir Muminovic fyrir brot á Hákoni Inga Jónssyni.

Blikar voru meira með boltann en sköpuðu sér fá færi gegn vel skipulögðum Fylkismönnum sem sitja í 2. sæti Inkasso-deildarinnar.

Forysta Fylkismanna eftir fyrri hálfleik var sanngjörn. Fylkismenn hófu leikinn af miklum krafti og sköpuðu sér þó nokkur færi. Það var með ólíkindum að Arnar Már Björgvinsson hafi ekki komið heimamönnum yfir á nítjándu mínútu en Gunnleifur Gunnleifsson, sem lá á bakinu, náði að sparka boltanum frá marki á undraverðan máta.

Fylkismenn héldu þó áfram að sækja og setja pressu á gestina. Það bar árangur á 37. mínútu er vítaspyrnan var dæmd. Damir var ósáttur við að hann hafi verið dæmdur brotlegur en Vilhjálmi Alvari Þórarinssyni, dómara leiksins, var ekki haggað.

Vilhjálmur Alvar hafði verið í sviðsljósinu skömmu áður þegar Ásgeir Eyþórsson varði skot Arnþórs Ara Atlasonar nánast á marklínu með höndinni. Blikar voru afar ósáttir en aftur var dómaranum ekki haggað.

Blikar gerðu tvöfalda skiptingu í upphafi síðari hálfleiks. Með innkomu Gísla Eyjólfssonar á miðjuna náði Kópavogsliðið tökum á miðjunni og sóttu þar með stíft á lið Fylkis. En það hefur nú verið vandamál Breiðabliks undanfarin misseri að skapa færi og skora mörk og varð engin breyting á því í kvöld, þó svo að Fylkismenn hafi nánast varla farið fram fyrir miðjulínu allan síðari hálfleikinn. Sóknarleikur Blika var einfaldlega afar bitlaus í kvöld.

Sigurður Víðisson hefur nú nokkra daga til að tjasla saman liði sínu fyrir leik liðsins gegn Víkingi á sunnudag en ljóst er að lið hans á enn nokkuð í land ef marka má leik kvöldsins. Fylkismenn halda hins vegar inn í næstu leiki í Inkasso-deildinni með fullt sjálfstraust og virðast staðráðnir í því að staldra stutt við í henni.

Gunnleifur: Lítið í okkur hjartað

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, var vitanlega hundfúll með niðurstöðuna í Árbænum í kvöld.

„Þú getur rétt ímyndað þér. Þetta er mjög svekkjandi. Erfið byrjun okkar heldur bara áfram. Við verðum í mikilli fýlu í kvöld en svo verðum við að fara að stíga á bensíngjöfina og gera þetta eins og menn,“ sagði Gunnleifur.

Gunnleifur segir að Fylkismenn hafi haft yfirhöndina í baráttunni í fyrri hálfleik og verðskulduðu forystuna.

„Við gerðum ekki nóg til að eiga eitthvað skilið úr leiknum. En í seinni hálfleik reyndum við og reyndum en fundum enga leið fram hjá þeim. Ég óska þeim til hamingju með þennan sigur.“

Fylkismenn vörðu forystuna í síðari hálfleik og Blikum gekk illa að skapa sér færi. „Það eru mörg lið sátt við að liggja til baka og við eigum erfitt með að finna okkur færi. Við verðum að finna lausn á því. Við erum í brekku og verðum að halda áfram að labba upp.“

Gunnleifur segir eðlilegt að mönnum líði ekki vel þegar margir tapleikir í röð hafa litið dagsins ljós.

„Þá er lítið í okkur hjartað. En við þurfum að vera eins og alvöru íþróttamenn og rífa okkur upp úr því, hjálpa hvorum öðrum í því og fara að gera þetta af hörku.“

Helgi: Treysti hverjum manni

Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, fer vel af stað í starfinu en undir hans stjórn hafa Fylkismenn unnið fyrstu þrjá leiki sína á tímabilinu, í bæði deild og bikar.

„Ég er alltaf ánægður með sigurleiki. Við lögðum mikið í þennan leik og það sást á strákunum. Það er svo alveg geggjað að það hafi skilað sigri gegn svo sterku liði,“ sagði Helgi.

Athygli vakti fyrir leik að hann ákvað að vera með þá Andrés Má Jóhannesson og Albert Brynjar Ingason á bekknum, tvo af reyndustu mönnum Fylkis.

„Ég er með sterkan hóp og ég treysti hverjum einasta manni. Ef maður er með sterkan hóp, hví ekki að nota þá. Strákarnir sýndu í dag að þeir geta þetta og stundum þurfa þeir bara að fá traustið.“

Hann vildi lítið segja um hvort væri í forgangi, deildin eða bikarinn. „Það sem er í forgangi er að vinna næsta leik, sama hvort það sé bikar eða deild. Við reynum að vinna sem flesta leiki og nú ætlum við að fagna í kvöld áður en við byrjum að undirbúa okkur fyrir leik gegn Keflavík á sunnudag.“

Blikar voru mun meira með boltann í síðari hálfleik og Helgi viðurkennir að hann hafi verið taugaóstyrkur undir lokin.

„En mínir menn börðust vel fyrir þessu og þetta tók mikið á. En við héldum út og það er það sem skiptir máli.“

Sigurður: Vinna bara næsta leik

Sigurður Víðisson, þjálfari Breiðabliks, hefur ekki náð að snúa gengi liðsins við eftir að hann tók við Arnari Grétarssyni í síðustu viku. Óvíst er hver taki við þjálfun Breiðabliks til frambúðar.

„Við töpuðum fyrir góðu liði Fylkis í dag. Við sóttum og sóttum en náðum ekkert að opna þá í síðari hálfleik. Þannig fór sem fór,“ sagði Sigurður.

„Við ætluðum að pressa á mark undir lokin en náðum ekki að opna þá. Við sóttum og vorum með boltann en gerðum lítið við hann.“

Sigurður verður með lið Blika út vikuna, hið minnsta, en veit svo ekkert um framhaldið. „Ég veit ekki neitt nýtt. Það er leikur gegn Víkingum á sunnudaginn og við gerum allt klárt fyrir það.“

Hann segist hafa áhyggjur af stöðunni hjá Víkingum en það er bara eitt í stöðunni til að laga hana. „Það er bara að vinna næsta leik.“