Handbolti

Tveir Gróttustrákar sömdu við Stjörnuna í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Dagur Pálsson.
Aron Dagur Pálsson. Vísir/Vilhelm

Stjarnan gekk í dag frá samningum við tvo nýja leikmenn fyrir komandi tímabil í Olís deild karla í handbolta.

Leikstjórnandinn Aron Dagur Pálsson og markvörðurinn Lárus Gunnarsson hafa báðir ákveðið að yfirgefa Gróttu og spila í Garðabænum á næsta tímabili.

Þetta er mikill missir fyrir Gróttuliðið, sem endaði einu sæti ofar en Stjarnan í Olís-deildinni í vetur.

Stjörnumenn hafa verið duglegir að styrkja sig fyrir komandi leiktíð því á dögunum samdi félagið við landsliðsmanninn Bjarka Má Gunnarsson.

Aron Dagur Pálsson er 21 árs og hefur verið fastamaður í unglingalandsliðum Íslands. Hann skoraði 80 mörk í 23 leikjum með Gróttuliðinu í vetur eða 3,5 mörk að meðaltali í leik.

Lárus Gunnarsson stóð sig vel í marki Gróttu í vetur en hann mun nú berjast um byrjunarliðssætið við Sveinbjörn Pétursson sem var einn besti markvörður deildarinnar á tímabilinu.

Lárus og Sveinbjörn fá nýjan markmannsþjálfara því Björn Ingi Friðþjófsson, fyrrum HK-ingur, mun halda þeim á tánum á næsta tímabili en hann hefur ráðið sig sem markmannsþjálfara Stjörnuliðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira