Skoðun
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM.

Að borga myndlistarmönnum: Framtíðin í þremur skrefum

Jóna Hlíf Halldórsdóttir skrifar

Í rúm þrjú ár hefur SÍM barist fyrir því að koma á samningum milli listamanna og opinberra safna, til að greiða listamönnum fyrir sýningarhald í söfnunum. Í rúmt ár hafa verið tilbúin drög að slíkum samningi, sem byggir á fyrirmyndum erlendis frá. Samningsdrögin hafa verið nefnd Framlagssamningurinn og er grundvöllur fyrir framtíðarfyrirkomulagi sýningarhalds á Íslandi, þar sem listamönnum sem sýna í virtustu sýningarsölum landsins verður greitt fyrir sýningarhald.

SÍM vann að Framlagssamningnum í samvinnu við forstöðumenn stærstu opinberu listasafnanna, og hefur kynnt drögin fyrir sveitarfélögum og ríki frá því í október 2015 sem hluti af herferðinni VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM. Afstaða SÍM hefur jafnframt verið sú að ríki og sveitarfélög, sem eiga og reka stærstu opinberu listasöfn landsins, verði að tryggja listasöfnunum þær aukafjárveitingar sem þarf til að koma samningnum á. Þrjú mikilvægustu skrefin sem þarf að hafa í huga til að koma á framtíðarfyrirkomulagi eru þessi.

1. Full fjármögnun framlagssamningsins er nær en við höldum
Út frá upplýsingum frá Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafninu á Akureyri, Listasafni Árnesinga, Listasafni Reykjanesbæjar, Hafnarborg og Gerðarsafni, sem birtar eru í STARA nýjasta tímariti SÍM, er ljóst að kostnaður vegna launa til listamanna eykst árið 2017 miðað við síðasta ár. Óskað var eftir upplýsingum frá söfnunum um hver kostnaðurinn yrði ef farið væri eftir Framlagssamningnum miðað við sýningardagskrá 2017, auk upplýsinga um hvað áætlað er að greiða listamönnum sem sýna á árinu. Upplýsingarnar eru birtar í tímaritunum sundurliðaðar miðað við þóknun, vinnuframlag og listamannaspjall. Fram kom að áætlað er að greiða samtals kr. 12.038.400. á árinu, sem yrði rúmlega 25% hækkun milli ára. Slíkar breytingar eru jákvæðar og skref í rétta átt.

Þessar upplýsingar fela líka í sér að framtíðin er mun nær en við höldum. Listasöfnin á Íslandi eru nú þegar tiltölulega nálægt því að geta fjármagnað greiðslur til listamanna samkvæmt Framlagssamningnum. Ef miðað er við árið 2017 þarf einungis 25 milljónir króna samanlagt frá sveitarfélögunum og ríki til að greiða myndlistarmönnum í samræmi við Framlagssamninginn. Það myndi breyta starfsumhverfi myndlistarmanna til samræmis við nágrannalöndin eins og Danmörk, Noreg og Svíþjóð. Ef launakostnaður safnanna hækkar áfram með sama hætti milli ára, yrðu greiddar þóknanir frá söfnunum í samræmi við Framlagssamninginn eftir fimm ár.

2. Ekkert kemur af sjálfu sér: listasöfn og listamenn þurfa að vinna saman að fjármögnun samningsins
Ef listasöfn á Íslandi myndu nú þegar greiða listamönnum eftir Framlagssamningnum á árinu 2017 væri heildarkostnaðurinn við það kr. 38.342.500. Til að hægt sé að komast þangað, þurfa listasöfnin að biðja um aukið fjármagn við gerð rekstraráætlana fyrir hvert starfsár. Það hefur hingað til ekki verið gert af krafti. Jafnframt þurfa söfnin að gera ráð fyrir því að kostnaður vegna launa til listamanna sé liður sem muni vaxa á næstu árum.

Nýlistasafnið var eina listasafnið sem bað um aukafjárveitingu á síðasta ári, til þess að greiða myndlistarmönnum eftir Framlagssamningnum miðað við sýningardagskrá 2017. Hafnarborg bað um aukafjárveitingu til þess að greiða myndlistarmönnum og fékk eina milljón króna. Það eru vonbrigði að ekki hafi fleiri söfn beðið um aukafjárveitingu til þess að greiða myndlistarmönnum eftir Framlagssamningnum.
Framtíðin kemur ekki af sjálfu sér; myndlistarmenn, söfn og stjórnvöld þurfa að vinna saman að breytingunum. Söfnin þurfa að biðja um og gera ráð fyrir að fá aukið fjármagn til þess að greiða eftir Framlagssamningnum. Því ef við spyrjum ekki þá er svarið alltaf nei.

3. Listamenn krefjist að fá greitt samkvæmt Framlagssamningnum
Myndlistarmenn sem fá boð um að sýna í söfnum sem rekin eru af opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, þurfa að standa með sjálfum sér. Þeir þurfa að þora að biðja um að greitt verði eftir Framlagssamningnum vegna sýningarhaldsins. Ef það gengur ekki eftir þurfa þeir að þora að spyrja: hvers vegna ekki?

Frá því SÍM hóf herferðina Við borgum myndlistarmönnum, virðist sem málaflokknum um greiðslur þóknana til listamanna hafi verið gefinn meiri gaumur og greiðslur vegna þóknana hafa vissulega aukist milli ára. Við erum samt ekki komin þangað sem við ætlum. Því meiri pressu sem við setjum á okkur sjálf, listasöfnin og eigendur þeirra, því styttri tíma tekur að komast þangað.

Það er ekkert að því að semja um kaup og kjör og óska eftir að fá laun fyrir sína vinnu. Það þarf kjark til að standa með sjálfum sér og við höfum nóg af honum nú þegar. Við notum hann á hverjum degi í okkar störfum. Nú þurfum við að nýta hann til að semja um kaup og kjör. Og svo þurfum við að nýta hann til að standa saman í gegnum þessar breytingar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira