Skoðun
Helmut Hinrichsen, gæðastjóri við FÁ.

Óþolandi óvissa um framhald skólastarfs

Helmut Hinrichsen skrifar

Nú tæpum tveimur vikum eftir að upplýsingar um fyrirhugaða einkavæðingu Fjölbrautaskólans við Ármúla láku í fjölmiðla bólar ekkert á endanlegri tilkynningu þar að lútandi frá mennta- og menningarmálaráðherra. Biðin eftir svari ráðherra er orðin óþægilega löng og hefur slæm áhrif á starfsanda og líðan starfsmanna og nemenda skólans. Að öllu jöfnu hefði undirbúningur næsta skólaárs hafist fyrir nokkru í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Í því felast m.a. ráðningar stjórnenda og annars starfsfólks, endurnýjun tækjabúnaðar og skipulag kennslu.

Dráttur á ákvörðun um framhald skólastarfs í Fjölbrautaskólanum við Ármúla hamlar þessari vinnu sem er löngu tímabær. Fyrir liggur að skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla hættir, enda stóð til að skólinn yrði lagður niður. Hver dagur sem líður án endanlegrar ákvörðunar skaðar skólastarfið enn meira, hvort sem skólinn verður á endanum lagður undir Tækniskólann eða ekki.

Öll gögn um nemendafjölda næstu ára og rekstur skólanna eru þekkt. Upplýsingar um breytingar á nemendafjölda næstu ára liggja fyrir. Ljóst er að nemendum í framhaldsskólum mun fækka á allra næstu árum og fjölga síðan aftur að fáeinum árum liðnum. Upplýsingar um rekstur skólanna og starfsánægju liggja fyrir. Samkvæmt niðurstöðum úttekta er Fjölbrautaskólinn við Ármúla vel rekinn skóli. Hann býr að glæsilegu húsnæði sem hentar vel starfsemi skólans, öflugu starfsliði og ánægðum nemendahópi. Skólinn er í áttunda sæti sem Stofnun ársins í flokki stofnana með fleiri en 50 starfsmenn og þar með, þriðja árið í röð, sá framhaldsskóli á höfuðborgarsvæðinu sem fær hæsta einkunn starfsmanna. Atburðarás síðustu daga hefur skaðað þann jákvæða starfsanda sem fyrir var. Þekkt er að skólinn hefur á löngum tíma byggt upp öflugt fjarnám sem er vel sótt af nemendum á öllum aldri hvaðanæva af landinu og ljóst er að forsvarsmenn Tækniskóla Íslands myndu ekki slá hendinni á móti því að taka fjarnám okkar yfir. Öll gögn liggja fyrir. Eftir hverju er beðið?

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt einkavæðinguna sem hefur farið fram á bak við luktar dyr. En af hverju heyrist ekkert í þingmönnum stjórnarflokkanna? Hvað segja þingmenn og ráðherrar Bjartar framtíðar og Viðreisnar? Ef andstaða meðal stjórnarliða skýrir þann drátt sem hefur orðið á endanlegri ákvörðun ráðherra væri eðlilegt að það kæmi fram í dagsljósið fyrr en seinna.

Að einkavæða ríkisskóla og segja starfsfólki hans upp er afdrifarík ákvörðun. Ákvörðun um framhald skólastarfs í Fjölbrautaskólanum við Ármúla þolir enga bið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Ég kom en

Hjördís Björg Kristinsdóttir skrifar

Skoðun

Áfram jafnrétti!

Heiða Björg Hilmisdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Ragna Sigurðardóttir og Ellen Calmon skrifar

Sjá meira