Viðskipti innlent

Seldu afþreyingu fyrir tvo milljarða á síðasta ári

Sæunn Gísladóttir skrifar
Smárabíó í Smáralind er eitt bíóa Senu.
Smárabíó í Smáralind er eitt bíóa Senu. Vísir/Albert
Árið 2016 hagnaðist Sena um 114,2 milljónir króna. Um er að ræða verulega aukningu milli ára en árið 2015 hagnaðist fyrirtækið um 56,7 milljónir króna.

Sala á vöru og þjónustu nam tveimur milljörðum króna á árinu, samanborið við 2,45 milljarða árið 2015. Þar af nam sala á vörum og þjónustu til kvikmyndahúsa 913 milljónum árið 2016, og jókst um 80 milljónir milli ára.

Fram kemur í ársreikningi að aðalstarfsemi félagsins er framleiðsla, útgáfa og dreifing á afþreyingarvöru í sinni breiðustu merkingu.

Á árinu 2016 var tónlistarrekstur samstæðunnar seldur og jafnframt seldi félagið dótturfélagið Sena Live ehf. sem sérhæfir sig í lifandi viðburðum.

Heildar eigið fé Senu nam 336 milljónum króna í árslok 2016, samanborið við 429 milljónir í árslok 2015. Hlutafé nam 94 milljónum króna og eignir í árslok námu samtals 868,8 milljónum króna. Skuldir námu samtals 527,7 milljónum króna, samanborið við 742 milljónir króna árið áður.

Á árinu störfuðu að meðaltali 43 hjá fyrirtækinu eða 11 færri en árið áður. Laun og launatengd gjöld námu 364 milljónum króna. Þar af námu laun framkvæmdastjóra 11,7 milljónum á árinu.

Hlutafé félagsins í upphafi og lok árs var allt í eigu Draupnis fjárfestingafélags ehf. Árið 2016 átti Jón Diðrik Jónsson 98 prósenta hlut í Draupni. Hann var jafnframt framkvæmdastjóri Senu á síðasta ári. Tillaga um greiðslu arðs var tekin fyrir á aðalfundi félagsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×