Íslenski boltinn

ÍR-ingar gerðu góða ferð norður og slógu KA-menn úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallgrímur Mar lagði upp mark KA en klúðraði svo vítaspyrnu.
Hallgrímur Mar lagði upp mark KA en klúðraði svo vítaspyrnu. vísir/ernir

ÍR, sem er í næstneðsta sæti Inkasso-deildarinnar, gerði sér lítið fyrir og sló KA úr leik í 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla í kvöld. Lokatölur 1-3, ÍR í vil.

KA-menn hafa farið frábærlega af stað á tímabilinu og sitja í 2. sæti Pepsi-deildarinnar með sjö stig. Þeim var hins vegar skellt niður á jörðina í kvöld.

ÍR komst yfir strax á 7. mínútu þegar Jón Gísli Ström skoraði með góðu vinstri fótar skoti.

Staðan var 0-1 í hálfleik en á 51. mínútu jafnaði Elfar Árni Aðalsteinsson metin eftir sendingu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni.

Á 63. mínútu fékk KA vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hönd Andra Jónassonar innan vítateigs. Hallgrímur Mar fór á punktinn en Steinar Örn Gunnarsson varði.

Staðan var 1-1 að venjulegum leiktíma loknum og því þurfti að framlengja.

Á sjöundu mínútu framlengingarinnar kom Andri ÍR-ingum yfir með skalla eftir sendingu Viktors Arnar Guðmundssonar.

Það var svo Jón Arnar Barðdal, lánsmaður frá Stjörnunni, sem gulltryggði Breiðhyltingum sigurinn á 111. mínútu. Lokatölur 1-3, ÍR í vil.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira