Innlent

Enginn saknaði bréfa sem hyskinn póstburðarmaður geymdi í bíl

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins.
Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins.
„Þessi starfsmaður mun ekki bera út fyrir Póstinn framar,“ segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins, um mál bréfbera sem uppvís varð að því að bera ekki út allar þær sendingar sem honum bar.

Íbúar á Seltjarnarnesi og út­burðar­hverfum með póstnúmerin 107 og 108 í Reykjavík hafa undanfarna daga sumir fengið í hendurnar gamlan póst sem að einhverju leyti átti jafnvel að bera út í janúar þótt megnið sé nýlegra. Með fylgir afsökunarbeiðni frá Póstinum og sú skýring að starfsmaður fyrirtækisins hafi brugðist skyldum sínum.

„Það kom ábending til okkar og í kjölfarið fannst töluvert magn af póstsendingum og bréfum í bíl um helgina,“ útskýrir Brynjar hvernig málið uppgötvaðist.

Langmest af póstinum sem fannst var svokallaður fjölpóstur. Málið komst ekki upp fyrr þar sem Póstinum höfðu ekki borist athugasemdir frá viðtakendum sem söknuðu bréfa að sögn Brynjars. Hann biðlar til viðskiptavina um að koma með ábendingar telji þeir útburði ábótavant. Það sé áhrifaríkasta leiðin til að fylgjast með því að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig.

Aðspurður segir Brynjar um að ræða starfsmann sem hafi áður unnið hjá Póstinum og hafið þar störf að nýju í haust. Hann vill ekki gefa upp hvaða skýringar viðkomandi gaf á hegðun sinni. „En allar skýringar eru algerlega óásættan­legar í þessari stöðu,“ ítrekar hann og upplýsir að starfsmaðurinn hafi verið kærður til lögreglu eins og venja sé í sambærilegum tilvikum.

Að sögn Brynjars ættu síðustu bréfin úr týnda póstinum að skila sér til viðtakenda í dag. Pósturinn telji að engar sendingar hafi glatast. „En við getum auðvitað ekki verið hundrað prósent viss því þessi póstur er í eðli sínu órekjanlegur.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×