Lífið

Lög sem snerta þjóðarsálina

Elín Albertsdóttir skrifar
Þeir eru ekki óvanir því að vinna saman þessir kappar. Stórtónleikar verða með þeim í Bæjarbíói á laugardagskvöld.
Þeir eru ekki óvanir því að vinna saman þessir kappar. Stórtónleikar verða með þeim í Bæjarbíói á laugardagskvöld. MYND/ANTON BRINK
Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason verða með stórtónleika í Bæjarbíói á laugardag en 45 ár eru frá því fyrsta hljómplata þeirra kom út.

Magnús og Jóhann ætla að flytja mörg af sínum þekktustu lögum á tónleikunum og ættu aðdáendur að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Magnús segir að það sé Börkur Hrafn Birgisson, kenndur við Jagúar og Benzin music, sem eigi hugmyndina að þessum tónleikum. „Hann hefur verið drifkrafturinn,“ segir hann en æfingar hafa staðið yfir í vikunni. „Börkur hefur gengið með þessa tónleika í maganum í nokkurn tíma. Hann langaði að velja nokkur af lögunum okkar og gera þeim góð skil. Börkur er sjálfur gítarleikari og bróðir hans, Daði, sem er með honum er hljómborðsleikari. Þetta eru duglegir strákar sem hafa verið að vinna með ýmsum tónlistarmönnum, til dæmis Bubba Morthens.

Börkur hefur lagt mikla vinnu í undirbúning og það er mikill kraftur í honum,“ segir Magnús en þeir félagar voru síðast með stórtónleika þegar þeir hituðu upp fyrir Eagles í júní árið 2011. Við erum öðru hverju að troða upp tveir en við erum ekkert sérstaklega að ræða það. Núna verðum við með hljómsveit með okkur, mjög góða tónlistarmenn.“

Ljúfu lögin

Fyrsta plata Magnúsar og Jóhanns kom út árið 1972 eða fyrir 45 árum en leiðir þeirra lágu fyrst saman í hljómsveitinni Nesmenn. Þegar sú hljómsveit lognaðist út af árið 1968 héldu þeir félagar samstarfinu áfram og hafa gert alla tíð síðan. Þeir eiga aragrúa laga sem hafa lifað með þjóðinni og verða mörg þeirra flutt á tónleikunum. Má þar nefna lög eins og Álfar, Söknuður, Ísland er land þitt, Ást, Blue Jean Queen, Jörðin sem ég ann, Í Reykjavíkurborg, Þú átt mig ein svo eitthvað sé nefnt. „Þetta eru lög sem hafa snert þjóðarsálina en við munum nálgast þau frjálslega,“ segir Magnús.

Magnús og Jóhann verða með þrumuhljómsveit með sér á sviðinu. MYND/ANTON BRINK
„Fyrsta platan okkar sem nefndist bara Magnús og Jóhann sló rækilega í gegn. Ég verð að viðurkenna að það kom okkur mjög á óvart. Við vorum eiginlega að leika okkur að taka upp þessi lög á segulband í kjallaranum hjá Jóhanni. Ómar Valdimarsson blaðamaður frétti af þessu, fékk upptökur og kom þeim fyrir í einhverjum menntaskóla. Síðan byrjaði síminn að hringja og áður en við vissum af vorum við komnir í sjónvarp og á sviðið í Háskólabíói með Trúbroti sem var vinsælasta hljómsveitin. Þegar ég hugsa um þetta eftir á finnst mér eins og okkur hafi verið kastað út í djúpu laugina. Fljótlega varð svo hljómsveitin Change til. Jóhann grínaðist með að við yrðum að standa upp en þá höfðum við alltaf komið fram sitjandi með kassagítara. Hann vildi líka breyta um lagastíl,“ útskýrir Magnús og bætir við að þeir verði nú sitjandi á tónleikunum á laugardag.“

Margt að gerast

Fyrir utan tónleikana á laugardag er Magnús Þór að vinna með Lúðrasveit Þorlákshafnar og Stefáni Jakobssyni í Dimmu. Lúðrasveitin ætlar að flytja vel valin lög úr safni Magnúsar sem Stefán flytur. Það verða þrennir tónleikar, þeir fyrstu í kvöld kl. 20.30 í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn, síðan á Hótel Örk á morgun og í Gamla bíói á laugardag. „Ég verð sögumaður á þessum tónleikum svo það er nóg að gera. Ég hef mjög gaman af því að þessi lög sem fóru burtu frá manni á sínum tíma skuli koma svona aftur og aftur í ýmsum útfærslum og með nýju fólki,“ segir Magnús sem einnig var að taka upp plötu með klassískri útgáfu af lögum sínum. „Það er ungur maður, Tómas Jónsson, afar hæfileikaríkur píanóleikari, sem leikur lögin á flygil. Platan er á rólegum og ljúfum nótum. Ég held að þetta sé besta plata sem ég hef komið að,“ segir hann. „Ég er enn með plötuna heima og á eftir að koma henni á markað en þetta eru sautján lög.“

Þetta er ekki það eina því Magnús Þór er einnig að vinna plötu með hljómsveitinni Árstíðum sem kemur út í haust. „Það var æðislegt að vinna með þessum strákum. Þeir eru að gera góða hluti.“

Magnús segir að þetta hafi verið viðburðaríkt ár í tónlistinni. Nokkur laga hans voru flutt sem ópera í Hljómahöll en söngvari var Elmar Gilbertsson. „Það var líka skemmtilegt. Það er svo ótrúlegt að hlusta á lögin sín í svona fjölbreyttum útsetningum,“ segir Magnús sem býr í Hveragerði með hænur, hunda og ketti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×