Enski boltinn

Mourinho vill halda De Gea

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lokaleikurinn? De Gea í markinu gegn Tottenham. Það var hugsanlega hans síðasti leikur fyrir Man. Utd.
Lokaleikurinn? De Gea í markinu gegn Tottenham. Það var hugsanlega hans síðasti leikur fyrir Man. Utd. vísir/getty
David de Gea mun ekki spila meira fyrir Man. Utd á þessari leiktíð og gæti verið búinn að spila sinn síðasta leik fyrir félagið.

De Gea er sterklega orðaður við Real Madrid og Man. Utd sagt vera farið að huga að því að finna eftirmann hans.

United á reyndar annan góðan markvörð í argentínska landsliðsmarkverðinum Sergio Romero. Sá stóð í marki United gegn Southampton í gær og mun verja mark United í úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Ajax. Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, hefur staðfest það.

Mourinho hefur einnig staðfest að hinn tvítugi Portúgali Joel Castro Pereira mun standa í marki United í lokaleik liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Nú spyrja menn sig að því hvort De Gea muni spila aftur fyrir rauðu djöflana.

„David er besti markvörður heims og að sjálfsögðu viljum við halda besta markverði heims,“ sagði Mourinho en hann virðist þó ekki óttast framtíðina þó svo De Gea fari.

„Við erum með landsliðsmarkverði Argentínu og Spánar. Það eru tvö af bestu landsliðum heims. Þetta eru einstakir markverðir. Svo er portúgalski strákurinn mjög góður líka. Við erum í öruggum höndum.“

Þegar er byrjað að tala um mögulega arftaka De Gea og þar hefur nafn Kasper Schmeichel komið upp. Það myndi örugglega gleðja marga stuðningsmenn Man. Utd að sjá son Peter Schmeichel í marki United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×