Enski boltinn

Kane með fernu þegar Tottenham rústaði Leicester

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Son Heung-Min og Harry Kane skoruðu mörk Tottenham á King Power vellinum.
Son Heung-Min og Harry Kane skoruðu mörk Tottenham á King Power vellinum. vísir/getty

Harry Kane skoraði fernu þegar Tottenham vann 1-6 sigur á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Kane er nú orðinn markahæstur í ensku úrvalsdeildinni þegar einni umferð er ólokið. Kane, sem varð markakóngur í fyrra, hefur skorað 26 mörk í vetur, tveimur mörkum meira en Romelu Lukaku hjá Everton.

Kane kom Tottenham yfir á 25. mínútu og Son Heung-Min jók muninn í 0-2 11 mínútum síðar.

Ben Chilwell minnkaði muninn fyrir Leicester á 59. mínútu en Kane skoraði sitt annað mark fjórum mínútum síðar.

Son bætti fjórða markinu við á 71. mínútu og Kane bætti svo tveimur mörkum við undir lokin. Þetta er í þriðja sinn sem Kane skorar þrjú mörk eða meira í leik í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Tottenham er í 2. sæti deildarinnar og mun enda þar. Leicester er hins vegar í 11. sætinu.