Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: Víkingur Ó. - Valur 0-1 | Bikarmeistararnir áfram eftir skallatennis í Ólafsvík

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Úr leik liðanna á Valsvelli á dögunum.
Úr leik liðanna á Valsvelli á dögunum. vísir/andri marinó

Ríkjandi bikarmeistarar Vals sigruðu Víking Ó. í blíðskaparveðri í Ólafsvík í kvöld í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins.

Fyrri hálfleikur var mjög jafn en heimamenn voru kannski eilítið sterkari aðilinn en þó án þess að skapa sér markverð tækifæri.

Og til þess að vinna knattspyrnuleiki þá verður maður að skapa marktækifæri og það er einmitt það sem Valsmenn gerðu loksins undir lok fyrri hálfleiks er Bjarni Ólafur, fyrirliði, liðsins átti fína fyrirgjöf sem endaði á Andra Adolphssyni. Andri skellti í hnitmiðað skot í nærhornið sem Cristian Martinez, markvörður Víkings Ó., réði ekki við.

Í seinni hálfleik gerðist fátt markvert og lítið var um færi. Bæði lið beittu mörgum löngum boltum og voru skallabaráttur nánast fleiri en stuttar sendingar.

En að lokum flautaði Þorvaldur Árnasson leikinn af og ríkjandi bikarmeistarar því komnir áfram og verða í pottinum á morgun.

Orri: Hef aldrei farið í jafn marga skallabolta á ævinni
Orri Sigurður Ómarsson var í hjarta varnar Vals í sigrinum og viðurkenndi að ekki hafi verið um fallegan leik að ræða.

„Þetta var ljótur leikur og lítið um gæða fótbolta en við kláruðum þetta og það er það sem skiptir máli.“

Eins og áður kom fram var mikið um langar sendingar og skallabolta í leiknum enda völlurinn full þungur á sér fyrir stutt spil. Orri tók vægast sagt undir þetta.

„Held ég hafi aldrei farið í jafn marga skallabolta á ævinni og aldrei gefið fleiri háa bolta á ævinni,“ sagði Orri og hafði líklega ekki rangt fyrir sér.

Valsmenn eru auðvitað ríkjandi bikarmeistarar tvö ár í röð en ef einhverjir halda að menn á Hlíðarenda séu orðnir saddir þá er það kolrangt að mati Orra. Hann segir stefnuna setta á þrennuna.

„Við ætlum bara í þrípít. Ekki spurning.“

Ejub: Erum með gott vatn hérna í Ólafsvík
Ejub Purisevic, þjálfari Ólafsvíkinga, var að vonum vonsvikinn með tapið og sagði sína menn verða að nýta færin sín betur en Víkingur Ólafsvík átti fínan kafla áður en Valsmenn skoruðu sigurmarkið undir lok fyrri hálfleiks.

„Valur er með svo marga gæða leikmenn. Í fyrri hálfleik kom rosalega flottur kafli frá okkur sem var í 10 mínútur eða korter en þeir fá innkast og fyrirgjöf og skora mark og hjá góðu liði er það nóg.“

Hann gaf lítið fyrir að það hefði verið verra að fá á sig mark undir lok fyrri hálfleiks en á öðrum tímapunkti í leiknum. Hann gagnrýndi einnig varnarleik sinna manna í marki Vals.

„Mér myndi ekki líða neitt betur að fá á okkur mark eftir 30 mínútur en vissulega áttum við að verjast betur og koma í veg fyrir þetta. Ef þú getur ekki varist föstum leikatriðum eða tekið ábyrgð á þínum manni er erfitt að spila með og á móti mönnum af þessum gæðaflokki.“

Mirza Mujcic fór meiddur af velli ásamt Emir Dokara en Ejub er bjartsýnn á að þeir verði fljótir til baka enda Ólsarar með ás upp í erminni.

„Við erum við með gott vatn hérna í Ólafsvík. Þeir læknast fljótt,“ sagði Ejub.

Ólafur: Tekur ekki þátt í bikarkeppni nema þú viljir vinna
Ólafur Jóhannesson var í sólskinsskapi í sólinni á Ólafsvík og sagðist ánægður með sigurinn og sérstaklega í ljósi þess að völlurinn var þungur og nokkuð frábrugðin gervigrasinu á Hlíðarenda.

Hann var ánægður með að vera í pottinum en dregið er í 16-liða úrslit Borgunarbikarsins á morgun. Aðspurður hvort stefnan væri sett á þriðja bikartitilinn í röð var Ólafur ekki í neinum vafa.

„Auðvitað. Þú tekur ekki þátt í bikarkeppni nema þú viljir vinna hana.“