Innlent

Verzló afbókaði Ingó vegna skoðana hans á Free the Nipple

Birgir Olgeirsson skrifar
Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó veðurguð, var afbókaður af tónleikum í Verzlunarskóla Íslands eftir að nemendur skólans lögðust gegn því að hann spilaði þar.

Ingó sagði frá þessu í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í morgun þar sem hann ræddi um þetta mál í tengslum við það að Egill Einarsson var nýverið afbókaður sem plötusnúður á lokaballi Verzlunarskólans eftir að nemendur lögðust gegn því að hann myndi spila þar.

Ingó segist hafa blandað sér í umræðuna um Free The Nipple-byltinguna í janúar síðastliðnum þar sem hann sagðist ekki sammála baráttufólki um mikilvægi þess átaks.

Í kjölfar þeirrar umræðu var haft samband við hann frá Verzlunarskólanum þar sem honum var tjáð að femínistafélag skólans hefði lagst gegn því að hann myndi spila á sal skólans í einu  hádeginu og var hann því afbókaður.

Í Harmageddon sagði Ingó tilgang femínismans vera góðan og að nánast allir væru þeirrar skoðunar að jafnrétti eigi að ríkja milli kynjanna. Hann sé hins vegar ekki endilega sammála hvaða aðferðum sé beitt til að ná því markmiði.

Í fyrra blandaði Ingó sér einnig í umræðuna um kynjakvóta þegar kemur að tónlistarmönnum sem troða upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Var það skoðun Ingó að kynjakvóti á listamenn sem koma fram á Þjóðhátíð geri lítið úr konum sem listamönnum.

Ingó sagði í Harmageddon í morgun að þó honum finnist kynjakvótar vitlausir, þá sé hann tilbúinn að koma með aðrar hugmyndir til að reyna að rétta hlut kvenna.

„En ef ég áskil mér þann rétt til að hafna kynjakvóta sem hugmynd, þá er það túlkað af femínistafélagi Verzló að ég hati konur,“ sagði Ingó.

Hann velti fyrir sér hvort að femínismi hafi farið út af brautinni og gert marga fráhverfa honum í leiðinni.

„Ég var aldrei að setja neitt út á baráttu kvenna, samt er mér bannað að koma og syngja í stærsta framhaldsskóla landsins,“ sagði Ingó


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×